Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Hálfs árs seinkun á opnun flugstöðvar á Akureyri

Hálfs árs seinkun á opnun flugstöðvar á Akureyri

117
0
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Ný viðbygging og flughlað rísa nú við Akureyrarflugvöll. Framkvæmdin hefur nú dregist um hálft ár, sem umdæmisstjóri Isavia segir vonbrigði en þó ekki óviðbúið.

Koma stálgrindarinnar tafðist

Áætlað er að viðbygging Akureyrarflugvallar verði tilbúin árið 2024. Framkvæmdin hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig vegna tafa á aðföngum til landsins. „Það er búið að steypa gólfið í viðbyggingunni og það er verið að undirbúa fyrir komu stálgrindarinnar en því miður eru tafir á henni.

<>

Hún er að koma að utan, það er áætlað að hún komi í nóvember. Ef að stálgrindin kemur fyrir áramót, þá verða settir upp veggir og þak eftir áramót, líklegast í mars. Við sjáum að það er seinkun út af þessu og við erum að áætla að minnsta kosti sex mánaða frestun á verkinu,“ segir Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi.

Vonbrigði en ekki óviðbúið

Hjördís segir að þó seinkunin hafi verið ákveðin vonbrigði, hafi þetta ekki komið á óvart, vegna stríðsástandsins og veirufaraldurs. En þrátt fyrir þrengsli á flugvellinum gangi vel að taka á móti farþegum.

„En þetta verður allt annað þegar viðbyggingin verður komin. Við fórum í bráðabirgðalausn núna í sumar og það er búið að bæta við gámaeiningum, búa til sal fyrir sunnan flugstöðina sem raunar hjálpar okkur ef við lendum í vandræðum.“

Auk viðbyggingarinnar er unnið að gerð nýs flughlaðs sem áætlað er að verði klárt seinni part næsta árs.

Alltaf góður andi á vinnusvæðinu

Þegar fréttastofu bar að garði var mikil stemning á smiðunum Gulla og Vigni, sem nutu sólarinnar og spiluðu ljúfa tóna á meðan þeir sinntu verkinu.

Þið eruð bara hérna tveir í dag og þegar við komum áðan var bara dúndrandi tónlist, er alltaf svona stemning á vinnusvæðinu?

„Já sérstaklega þegar er svona gott veður,“ segir Guðlaugur Hólm Guðmundsson, verkstjóri.

Kannski ekki jafn mikil stemning í rigningunni?

„Jú samt, þá lætur maður græjurnar samt ganga til að stytta sér daginn.“

Heimild: Ruv.is