Home Fréttir Í fréttum Fjöldi erlendra starfsmanna greiða ekki skatta og gjöld hér

Fjöldi erlendra starfsmanna greiða ekki skatta og gjöld hér

99
0
Fjöldi erlendra starfsmanna sem vegna tvísköttunarsamninga greiða ekki skatta og önnur opinber gjöld hér á land rösklega þrefaldaðist á síðasta ári. Fjöldi þeirra fór yfir 300 en var árið áður um 90.

Í viðtali við Gissur Pétursson, forstjóra Vinnumálastofnunar, í Speglinum fyrir nokkru kom fram að erlendum starfsmönnum hér á landi hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2013. Hlutfall þeirra af vinnuafli náði um 10 prósentum 2008 eða rétt áður en efnahagskerfið hér hrundi. Því er spáð að þessu hlutfalli verði aftur náð á næsta ári og þá verði yfir 19 þúsund erlendir starfsmenn hér. Gissur var spurður að því hvort ástandið nú væri farið að líkjast ástandinu sem ríkti fyrir hrun og hvort að undirboð væru í gangi nú.

<>

„Það eru ný fyrirtæki sem koma inn á markaðinn og ná til sín stórum verkefnum. Maður spyr sig hvernig er það hægt öðruvísi en að bjóða í verk talsvert lægri upphæðir en aðrir. Hvers vegna er það hægt og hvernig fara menn að því?  Mér fyndist ástæða til að skoða það hverig það má vera að fyrirtæki geti haslað sér völl með þessum hætti. Og síðan er það líka grunur um að það sé ekki verið að borgar laun í samræmi við kjarasamninga og það sé aðferðin sem sé verið að beita,“ sagði Gissur.

183 daga reglan

Alþýðusambandið er nú að undirbúa varanlegt átak gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi sem á að hefjast í lok þessa mánaðar. Ýmsar vísbendingar og fullyrðingar hafa verið á lofti um að nú þegar vinnumarkaðurinn er að nýju að þenjast út séu brögð að því að ekki séu greidd laun samkvæmt kjarasamningum. Samkvæmt lögum eiga allir erlendir starfsmenn að fá greidd laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Þeir eiga að minnsta kosti að fá lágmarkslaun. Elín Margrét Þráinsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, segir að samkvæmt íslenskum lögum eigi allir erlendir starfsmenn að greiða skatta hér á landi.

„Síðan erum við með tvísköttunarsamninga við fjölmörg ríki. Þar er kveðið á um að ef starfsmenn sem koma hingað til lands og starfa fyrir þarlent fyrirtæki og eru hér skemur en 183 daga greiði þeir skatta í sínu heimalandi,“ segir Elín Margrét.

Hún segir að 183 dagarnir miðist við 12 mánaðar tímabil í senn. Um leið og erlendir starfsmenn vinna lengur en þessa 183 daga eru þeir skattskyldir hér á landi. Ekkert banni það að erlendir skipti um starfsmenn til að halda sér innan þessara marka.

Þrefalt fleiri á síðasta ári.

Þegar litið er á tölur frá Vinnumálastofnun kemur í ljós að erlendum starfsmönnum sem falla undir þessa 183 daga reglur fjölgaði mikið á síðasta ári. 2014 voru hér að störfum 91 starfsmaður hjá 5 fyrirtækjum en samkvæmt tiltækum tölum til loka nóvember var fjöldi erlendra starfsmanna á síðast ári kominn yfir 300. Fjölgunin skýrist að sjálfsögðu af því að þörfin á erlendu vinnuafli jókst talsvert á síðasta ári. Starfsmönnum sem starfa hér á vegum starfsmannaleiga fjölgaði einnig, úr um 20 í rösklega 100. Um þær gilda ákveðin lög um að starfsmenn greiði skatta og opinber gjöld hér á landi og að greidd séu laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Starfsmenn og fyrirtæki sem eru hér á 183 dagareglunni greiða hins vegar engin opinber gjöld hér. Ekki skatta, ekki í lífeyrissjóði eða tryggingargjöld. Þeir greiða hins vegar skatta í sínu heimalandi. Í einhverjum tilfellum kann það að vera hagstæðara fyrir verktaka að starfsmennirnir greiði skatta heima fyrir. Speglinum er líka kunnugt um að erlendir verktakar viti vel um þessar reglur og komi sér hjá því að mynda svokallaða fasta starfsstöð hér á landi. Ef verktaki er með verk sem tekur meira en ár getur hann ekki verið með starfsmenn samkvæmt tvísköttunarreglunni.

Heimild: Rúv.is

Previous articleFélagsbústaðir hf. hefur samþykkt að kaupa 47 íbúðir af Íbúðalánasjóði
Next articleKSK byggir verslunar- og þjónustukjarna við Flugstöð Leifs Eiríkssonar – Opnar 2017