Félagsbústaðir hf. hefur samþykkt að kaupa 47 íbúðir af Íbúðalánasjóði. Íbúðirnar eru staðsettar víðsvegar í Reykjavík, eru flestar tveggja eða þriggja herbergja og í útleigu.
Félagið er í eigu Reykjavíkurborgar og hefur það markmið að stuðla að framboði á félagslegu leiguhúsnæði í borginni. Með þessum kaupum hefur félagið keypt um 85 íbúður frá því í fyrra.
Líkt og greint hefur verið frá, hefur Íbúðalánasjóður lagt áherslu á að selja sem mest af eignum sjóðsins á þessu ári. Í tilkynningu vegna sölunnar segir að um 700 eignir séu nú til sölu í fasteignasölum um land allt og um 500 til viðbótar voru boðnar til sölu í desember.
Þá bauð sjóðurinn sveitarfélögum til viðræðna um kaup á eignum í október og kom þessi sala til í framhaldi af þeim viðræðnum.
Afhending eignanna fór fram á gamlársdag. Félagsbústaðir taka yfir leigusamninga sem eru í gildi og verður breytt eignarhald kynnt íbúum íbúðanna á næstunni.
Heimild: Vísir.is