Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir í Straumsvík þyrftu að hefjast á næsta ári

Framkvæmdir í Straumsvík þyrftu að hefjast á næsta ári

185
0
Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt að gengið verði hið fyrsta frá samkomulagi Hafnarfjarðarbæjar, Hafnarfjarðarhafnar, Carbfix og fleirum um uppbyggingu í Straumsvíkurhöfn vegna Coda verkefnisins á vegum Carbfix. Coda verður móttöku- og förgunarstöð fyrir koltvísýring við álverið í Straumsvík. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að framkvæmdir í við höfnina þurfi að hefjast á næsta ári ef áætlanir Carbfix eigi að ganga eftir.

Tillaga þessa efnis var lögð fram af Samfylkingunni í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um miðjan ágúst og var hún samþykkt. Í bókun segir að bæjarstjórnin ætli að ganga frá almennri viljayfirlýsingu eða rammasamkomulagi þeirra sem hlut eiga að máli, bæjarins, hafnarinnar og svo eftir atvikum ríkisins og Rio Tinto, sem á og rekur álverið, um framkvæmdir í höfninni. Mikilvægt er að þetta fyrirhugaða samstarf verði formgert hið fyrsta, segir í bókuninni. Sömuleiðis ætlar bæjarstjórnin að setja á laggirnar skipulags- og verkefnisstjórn um verkefnið. Krónutalan er ekki orðin opinber og þá liggur ekki fyrir hvernig kostnaðinum verði skipt niður.

<>

Coda Terminal verkefnið verður fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu en þar mun Carbfix tækninni verða beitt til að farga CO2 varanlega. Koltvíoxíð verður flutt hingað til lands með sérhönnuðum skipum. Jafnframt má farga þar CO2 sem er fangað beint úr andrúmslofti og frá innlendum iðnaði.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir skipulagsmálin mikilvægust á þessum tímapunkti.

„Þá sérstaklega uppbygging í Straumsvíkuhöfn, að það verði gert nýtt hafnarmannvirki í Straumsvík. Ef áætlanir CarbFix ganga allar eftir þá þurfum við í Hafnarfirði að fara að hefjast handa við að hreinlega byggja upp þarna í straumsvíkurhöfn til að geta tekið þátt í þessu,“ segir Rósa og undirstrikar að sú framkvæmd muni skapa mikla möguleika fyrir höfnina. Svo segir Rósa að mikilvægt sé að kynna áformin vel fyrir íbúum og bænum í aðdraganda hvers áfanga verkefnisins. Þetta verður heljarinnar framkvæmd sem krefst mikils undirbúnings. Ef allt á að ganga upp þurfa framkvæmdir við höfnina að hefjast á næsta ári.

„Við þurfum að vera tilbúin ef allt gengur að óskum hjá þeim og þetta gengur allt upp. Ég veit að þetta er búið að vekja heimsathygli nú þegar.“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Mynd: Þór Ægisson

Heimild: Ruv.is