Home Fréttir Í fréttum Sirrý ráðin til Hornsteins

Sirrý ráðin til Hornsteins

130
0
Ljósmynd: Aðsend mynd

Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Sirrý, hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri umhverfismála hjá eignarhaldsfélaginu Hornsteini ehf. og kemur til með að leiða umhverfis- og gæðasvið félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

<>

Sirrý hefur gegnt lykilhlutverki í margvíslegum verkefnum tengt sjálfbærni og vistvænni mannvirkjagerð. Síðasta ár starfaði hún sem dósent við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Þá var hún ráðgjafi í fjögur ár hjá VSÓ Ráðgjöf og byggði upp þjónustuframboð í sjálfbærnimálum tengt byggingariðnaði.

Hún var í lykilhlutverki í verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar „Byggjum grænni framtíð – Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030“ og stýrði vinnu mælingahóps sem vann að því að áætla kolefnislosun frá byggingariðnaði á Íslandi.

Sirrý lauk grunnnámi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands 2008 og tveim árum síðar lauk hún framhaldsnámi við Michigan Technological University í byggingarverkfræði. Hún lauk síðan doktorsprófi í byggingarverkfræði árið 2012 og hefur skrifað fjölda ritrýndra fræðigreina og bókakafla varðandi loftslagsmál og aðlögunarhæfni bygginga og innviða.

Sigríður Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteini ehf.:

„Ég er ofboðslega spennt fyrir því að fá þetta magnaða tækifæri að koma til starfa hjá Hornsteini. Það er mikill skriðþungi hvað varðar sjálfbærni innan byggingariðnaðarins. Hornsteinn, og dótturfélög þess, eru í einstakri stöðu til þess að vera leiðandi á þessu sviði. Lykillinn að sjálfbærni komandi kynslóða á Íslandi er að mörgu leiti fólgin í steypunni og ég hlakka til þess að tryggja að steypa verður byggingarefni framtíðarinnar.“

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins ehf.:

Við erum einstaklega ánægð með að fá Sirrý í stjórnendateymi Hornsteins til að styrkja enn frekar vegferð okkar um að vera í forystuhlutverki er kemur að lausnum í vistvænni mannvirkjagerð. Sirrý hefur unnið með okkur í nokkrum verkefnum er tengjast sjálfbærni og hringrásarhagkerfinu og þekkir því starfsemi okkar vel. Ég veit að hún kemur inn með verðmæta þekkingu í félagið og er sannfærður að hún muni láta til sín taka í þeim krefjandi, en nauðsynlegu verkefnum, er varða loftslagsvænni lausnir fyrir byggingariðnaðinn.“

Heimild: Vb.is