Fækka á akreinum á Háaleitisbraut ofan Bústaðavegar úr fjórum í tvær og leggja af tvær beygjuakreinar. Framkvæmdir vegna þessa hefjast í september. Umferð verður tímabundið beint um Áland ofan Borgarspítala og Fossvogsveg neðan spítalans.
„Rökin fyrir því að þrengja Háaleitisbrautina eru nokkur,“ segir í svari frá Reykjavíkurborg til Fréttablaðsins. „Ekki er metin þörf á því að hafa 2+2 akreinar á þessum vegi með tilliti til umferðarmagns sem um þennan veg fer,“ segir í svarinu. Akvegurinn verður því með einni akrein í hvora átt.
„Þar sem loka á framhjáhlaupi í gatnamótum við Bústaðaveg verður Háaleitisbraut einnig þrengd um eina akrein til norðurs, að öðru leyti verður áfram sami akreinafjöldi og nú í aðdraganda gatnamótanna.“
Öryggisatriði sé að huga að gangandi og hjólandi vegfarendum sem þessar aðgerðir snúist um, ekki verði átt við akreinafjölda á Bústaðavegi.
„Nema að lögð verða niður tvö framhjáhlaup í gatnamótunum, líkt og gert var á gatnamótum Grensásvegar og Bústaðavegar.“
Beygjuakreinarnar – eða framhjáhlaupin – sem hverfa, eru annars vegar frá Háaleitisbraut vestur Bústaðaveg þegar komið er niður Háaleitisbraut og hins vegar frá Háaleitisbraut austur Bústaðaveg þegar ekið er frá Borgarspítalanum.
Heimild: Frettabladid.is