Lækkar í 60%
Meðal þeirra efnahagsaðgerða, sem ríkisstjórnin greip til eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á 2020, var 100 prósent endurgreiðsla af virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðarhúsnæði. Einnig var endurgreitt vegna hönnunar, bifreiðaviðgerða, frístundahúsnæðis, heimilishjálpar, reglulegrar umhirðu og fleira. Full endurgreiðsla er nú aðeins í gildi fyrir íbúðarhúsnæði en eftir 31. ágúst fer hún niður í 60 prósent af vinnu við íbúðarhúsnæði.
15 þúsund umsóknir í stað 58 þúsunda
Þau sem vita af því að fresturinn er að líða hafa jafnvel einhver greitt iðnaðarmönnum fyrirfram til þess að ná fyrir mánaðamótin. Hjá Skattinum bíða nú þrjú til fjögur þúsund umsóknir afgreiðslu og er talið að þær geti orðið allt að 15 þúsund á árinu. Í fyrra urðu þær 58 þúsund. Skýringar á muninum liggja ekki fyrir. Vera kann þó að fólk hafi í fyrra varið meira fé í framkvæmdir þegar erfiðara var að fara til útlanda í frí, vegna samkomutakmarkana, en að núna hafi stefnan verið sett á útlönd.
1,8 milljarður í stað 10,6 milljarða
Það sem af er ári hefur samtals 1,8 milljarður króna verið endurgreiddur, langmest til einstaklinga fyrir íbúðarhúsnæði.
Miklu hærri tölur voru í fyrra því þá voru samtals 10,6 milljarðar endurgreiddir, þar af 85 prósent til einstaklinga fyrir íbúðarhúsnæði.
Vilja að endurgreiðslur haldi áfram
Sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins segir tíðarfar í sumar hafa hentað illa til viðhaldsvinnu og þar að auki verði afgangur af þeim fjármunum sem ætlaðir hafi verið í endurgreiðslu hjá ríkinu. Því sé einboðið að halda átakinu áfram.
„100 prósent endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu og hönnunar á íbúðarhúsnæði hefur tekist vel til til þess að vera hvati til viðhalds. Jafnframt teljum við að það hafi tekist vel til til þess að neytendur þeir raunverulega velja sér fyrirtæki sem að gefa frekar upp til skatts. Þannig að þetta vinnur gegn svartri atvinnustarfsemi, ásamt því að þetta skapar störf og viðheldur verðmæti eigna,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins.
Opinberar álögur hafa áhrif á verð
Þeir sem mestar endurgreiðslur hafa fengið í átakinu eru byggingaverktakar. En á þá verð á húsnæði eftir að hækka þegar átakinu lýkur?
„Auðvitað hefur þetta allt áhrif á byggingakostnað, opinberar álögur þar á meðal. Og þó svo að við höfum ekki gert einhverja greiningu á því að þá má alveg gera ráð fyrir því að einhverju marki.“
Og eins og allir vita hefur ekki beinlínis viðrar vel til utanhússframkvæmda í sumar:
„Ef við horfum til þess þá er tímasetningin gríðarlega óhagstæð.“
Færri umsóknir en gert var ráð fyrir
Gert var ráð fyrir ákveðinni upphæð í endurgreiðslur á árinu. Umsóknir hafa hins vegar verið mun færri en áætlað var og segir Björg Ásta því eðlilegt að framlengja úr því að það er afgangur.
Ekki er þó von á því að átakið verði framlengt, bæði vegna þess að til stóð að það gilti aðeins til síðustu áramóta og líka vegna þenslu og verðbólgu.
Heimild: Ruv.is