Home Fréttir Í fréttum Undirbúa nýja íbúðabyggð í landi Breiðabólsstaðar II í Reykholtsdal

Undirbúa nýja íbúðabyggð í landi Breiðabólsstaðar II í Reykholtsdal

271
0
Hér má sjá uppdrátt að nýju deiliskipulagi fyrir Breiðabólsstað II.

Á fundi byggingar- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar síðastliðinn mánudag var lögð fram vinnslutillaga að breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sem snýst um jörðina Breiðabólsstað II í Reykholtsdal.

<>

Umræddur jarðarhluti er 50 ha að flatarmáli og er sunnan við þjóðveginn og er suðaustan við þéttbýliskjarnann í Reykholti. Á hluta hins deildiskipulagða svæðis er nú verslunin Skjálfti, slökkvistöð, hús björgunarsveitarinnar Oks og fjögur íbúðarhús.

Umrædd breyting á deiliskipulagi tekur til 35 ha svæðis sem nú er skilgreint sem landbúnaðar- og athafnasvæði og stefnt að því að breyta í íbúðasvæði. Lagður var fram uppdráttur og greinargerð vegna verkefnisins þar sem tekið hefur verið tillit til þeirra umsagna sem bárust á fyrri stigum skipulagsferlis.

Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið er gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn fyrir nýtt húsnæði geti orðið allt að 22.630 m2 á alls 99 lóðum. Ein lóð er fyrir verslun og þjónustu og 98 lóðir fyrir íbúðarhúsnæði.

Innan hins nýja hverfis er gert ráð fyrir fjórum raðhúsalóðum með fjórum íbúðum í hverri, alls 16 íbúðir. Fjórar parhúsalóðir eru með tveimur íbúðum, alls átta íbúðir og loks eru 74 misstórar einbýlishúsalóðir, en gert ráð fyrir að heimilt verði að sameina einhverjar þeirra.

Skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar lagði til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirliggjandi vinnslutillögu um breytingu á landnotkun. Nefndin lagði jafnframt til að sveitarstjórn samþykki til auglýsingar fyrirliggjandi vinnslutillögu að breyttu aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Heimild: Skessuhorn.is