Home Fréttir Í fréttum Dynjandisheiði: Skrifað undir samning næstu daga

Dynjandisheiði: Skrifað undir samning næstu daga

206
0
Nýr vegur á Dynjandisheiði. Mynd: Björn Davíðsson.

Skrifað verður undir samninga við lægstbjóðanda í þessari viku eða þeirri næstu um gerð 12,6 km langan nýjan veg á Dynjandisheiði að sögn Sigurþórs Guðmundssonar deildarstjóra hjá Vegagerðinni. Tilboð voru opnuð í byrjun júlí. Suðurverk hf., Kópavogi bauð lægst 2.454 m.kr. sem var tæplega 2% yfir kostnaðaráætlun. Verkinu skal að fullu lokið 15. júlí 2024.

<>

Þá er eftir um 8 km kafli á Dynjandisheiðinni frá Búðavík í Dynjandisvoginum og upp á heiðina. Skipulagsmál eru ófrágengin og Ísafjarðarbær hefur ekki gengið frá skipulagsbreytingum. Sigurþórs kvaðst ekki gera ráð fyrir þessum kafla í útboð á árinu.

ÓVÍST MEÐ ÚTBOÐ Á BRÚNUM Í GUFUDALSSVEIT
Í Gufudalssveit eru framkvæmdir hafnar við nýjan veg frá Hjallahálsi út Þorskafjörðinn að Hallsteinsnesi. Leggja á 10 km langan veg og skal verkinu að fullu lokið 15. október 2023.

Þverun Þorskafjarðar er í fullum gangi. Vegagerðin samdi við Suðurverk hf um verkið sem er nýbygging Vestfjarðavegar á um 2,7 km kafla yfir Þorskafjörð. Innifalið í verkinu er bygging 260 m langrar steyptar brúar á Þorskafjörð. Tilboð Suðurverks var kr. 2.236.614.223 sem er 7,6% yfir kostnaðaráætlun. Verkinu á að vera að fullu lokið 30. júní 2024.

Þá stendur eftir að bjóða út þverun og brúargerð frá Hallsteinsnesi að Skálanesi. Sigurþór sagði að ekki væri búið að ákveða hvort um yrði að ræða eitt eða tvö útboð. Það væri í skoðun. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar taldi líklegra að um tvö útboð yrði að ræða. Það er ósennilegt að þetta fari í útboð á þessu ári að hans sögn.

Sigurþór Guðmundsson sagði að áætlun Vegagerðarinnar væri að verkinu lyki árið 2024 en það gæti dregist yfir á 2025.

Heimild: BB.is