Home Fréttir Í fréttum Velta Mal­bik­stöðvarinnar eykst um 36%

Velta Mal­bik­stöðvarinnar eykst um 36%

197
0
Vilhjálmur Þór Matthíasson, eigandi Malbikstöðarinnar Ljósmynd: Aðsend mynd

Umfang starfsemi Malbikstöðvarinnar jókst mikið frá fyrra ári. Félagið hagnaðist um meira en hálfan milljarð og hyggst greiða út 350 milljónir í arð.

<>

Velta Malbikstöðvarinnar nam 2,2 milljörðum króna á síðasta ári sem er 36,7% aukning frá árinu 2020. Félagið hagnaðist um 554 milljónir í fyrra samanborið við 88 milljónir árið áður. Félagið, sem er alfarið í eigu Vilhjálms Þórs Matthíassonar, hyggst greiða út 350 milljónir í arð í ár.

„Umfang starfsemi félagsins jókst mikið frá fyrra ári. Aukningin fylgir í kjölfar mikilla fjárfestinga í samkynja rekstrareiningum sem hafa verið sameinaðar félaginu,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi. Jafnframt bendir stjórnin á að fjárfestingar innan samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 327 milljónum á árinu.

Í lok september sameinuðust Fagverk verktakar, Malbik og völtun og Malbikstöðin, undir merkjum síðastnefnda fyrirtækisins. Stjórnin segir að tilgangur með sameiningu félaganna sé að einfalda reksturinn þannig að allur malbiksrekstur samstæðunnar verði í einu félagi og auka þannig arðsemi rekstrareininganna.

„Í ljósi mikils innri og ytri vaxtar félagsins munu stjórnendur leggja áherslu á að samþætta reksturinn og styrkja innri verkferla til að geta tekist á við áskoranir í tengslum við auknar innviðafjárfestingar á komandi árum.“

Meðalstöðugildi hjá Malbikstöðinni voru 36 í fyrra og laun og annar starfsmannakostnaður nam 471 milljón. Mikill munur er á fjölda starfsmanna milli sumar- og haustvertíðar og annarra hluta ársins en þegar mest lét voru starfsmenn yfir 60.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 2,15 milljarðar í lok síðasta árs og eigið fé var ríflega 1,5 milljarðar.

Í samkeppni við dótturfélag Reykjavíkurborgar

Eitt af fyrirtækjunum á markaðnum er Malbikunarstöðin Höfði sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Malbikunarstöðin Höfði hefur haft afnot af lóð við Sævarhöfða en vinnur nú að flutningum á iðnaðarsvæði við Álfhellu í Hafnarfirði. Eignarhald Reykjavíkurborgar á fyrirtækinu, sem starfar á samkeppnismarkaði, er umdeilt og hefur Viðreisn, einn borgarstjórnarflokkanna, boðað sölu á fyrirtækinu í nokkurn tíma.

„Við erum að skoða kosti og galla við söluna, það þarf að gera þetta faglega. Við viljum auka samkeppni en ekki skapa fákeppni,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni, við mbl.is í kjölfar myndunar nýs meirihluta í byrjun síðasta júní síðastliðins.

Viðskiptablaðið ræddi við Vilhjálm Þór, eiganda Malbikstöðvarinnar í árslok 2020 þegar samkeppnisaðilinn Malbikunarstöðin Höfði, dótturfélag Reykjavíkurborgar var að undirbúa flutninga. Hann sagði það skjóta skökku við að borgin myndi verja háum fjárhæðum í að setja upp nýja malbikunarverksmiðju í samkeppni við einkaaðila. Auk Malbikunarstöðvarinnar Höfða séu þrjú einkarekin fyrirtæki á markaðnum.

„Þeir eru því að eyða nokkrum milljörðum króna í að standa í samkeppni við einkarekin fyrirtæki. Það er illskiljanlegt að þeir séu að fara í þessa uppbyggingu þegar það er þegar nóg af fyrirtækjum á þessum markaði nú þegar,“ sagði Vilhjálmur Þór.

Ólíkt Malbikstöðinni sem fjallað var um hér að ofan þá hefur velta Malbikunarstöðvarinnar Höfða dregist saman samfleytt í þrjú ár. Afkoma dótturfélags borgarinnar var í kringum núllið á síðustu tveimur árum.

Heimild: Vb.is