Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Samningur um byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla undirritaður

Samningur um byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla undirritaður

282
0
Teikning af Urriðaholtsskóla, 2. áfangi er vinstra megin á myndinni

Undirritaður hefur verið verksamningur milli Garðabæjar og ÞG verk vegna byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla.

<>

Undirritaður hefur verið verksamningur milli Garðabæjar og ÞG verk vegna byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla í Garðabæ. ÞG-verk var lægstbjóðandi í framkvæmdaútboði um bygginguna sem fram fór í byrjun sumars. Samningsupphæðin hljóðar upp á um 2,8 milljarða króna. Verkið felur í sér byggingu og fullnaðarfrágang 2. áfanga skólans að utan sem innan, ásamt fullbúinni og frágenginni lóð.

Urriðaholtsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli í Urriðaholti, fyrir 1. til 10. bekk í grunnskóla ásamt því að 6 deilda leikskóli er í skólanum. Fyrsti áfangi skólans var tekinn í notkun árið 2018.

Bygging 2. áfanga Urriðaholtsskóla og áform um 3. áfanga

Annar áfangi skólans verður á 2 hæðum og verður hann sambyggður fyrsta áfanga við vesturgafl og að öllu leyti eins útfærður. Byggingin verður einangruð að utan með samskonar klæðningu og á henni verður flatt, tyrft þak. Heildarstærð 2. áfanga áfanga verður um 4.900 m².

Jarðvinnu vegna 2. áfanga er þegar lokið og unnið er að uppsetningu verkstaðar, vinnubúða og öryggisgirðinga. Byggingaframkvæmdir ÞG-verk hefjast af fullum þunga strax eftir Verslunarmannahelgina. Byggingunni verður skv. verkáætlun samningsins við Garðabæ skilað fullbúinni að utan sem innan í byrjun árs 2024.

Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG verk og undirr bæjarstjóri handsala samninginn.

Unnið er að lokahönnun þriðja og síðasta áfanga skólans, sem mun m.a. hýsa íþróttasal og sundlaug ásamt tilheyrandi rýmum. Þegar hönnun á 3. áfanga lýkur fer hann í ferli samþykktar og útboðs.

Heimild: Garðabær.is