Heidelberg Cement Pozzolanic Materials (HPM) ehf. sótti um tólf samliggjandi iðnaðarlóðir í Þorlákshöfn, sem verða sameinaðar í eina 50 þúsund fermetra lóð, fyrir nýja verksmiðju sem framleiðir íblöndunarefni fyrir sement. Skipulags- og umhverfisnefnd Ölfuss samþykkti lóðarúthlutunina 21. júlí.
Þetta kom fram í Morgunblaðinu í gær, miðvikudag.
Uppbygging gæti hafist 2023
„Gert er ráð fyrir að endanleg niðurstaða um gerð verksmiðju og fjárfestingar liggi fyrir á fyrsta fjórðungi næsta árs og að framkvæmdir hefjist þá væntanlega upp úr miðju næsta ári ef allt gengur að óskum,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins ehf. Heidelberg Cement á 53% í Hornsteini ehf. en þetta verkefni er alfarið á vegum Heidelberg Cement. Ætla má að uppbyggingin taki allt að tvö ár, áður en verksmiðjan tekur til starfa.
„Þetta er í sjálfu sér mjög áþekk starfsemi og sementsverksmiðja en án ofns. Þarna verður efni, sem á síðan að mala, þurrkað með rafmagni og jarðvarma. Verksmiðjan verður eingöngu knúin endurnýjanlegum orkugjöfum.“
Efnið verður flutt laust í sementsskipum til Norður-Evrópu.
Stærsta loftslagsverkefnið
„Okkur þykja stærstu tíðindin í þessu vera að á bak við hver milljón tonn sem verksmiðjan framleiðir, er dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 700 þúsund tonn,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. „Þriggja milljóna tonna framleiðsla á ári þýðir þannig að 2,1 milljónar tonna losun koltvísýrings sparast. Þetta er sennilega stærsta loftslagsverkefnið á Íslandi í dag.“
Heimild: Mbl.is