Home Fréttir Í fréttum Vinna alla daga til að ljúka framkvæmdum Fossvogsskóla

Vinna alla daga til að ljúka framkvæmdum Fossvogsskóla

176
0
Mynd: RÚV / RÚV
Kennsla hefst á ný í haust í Foss­vogs­skóla, þremur árum eftir að mygla greindist í skólanum. Umfangsmiklar framkvæmdir hafa átt sér stað undanfarið ár og vinna verkamenn nú alla daga og allar helgar til að húsið veðri klárt í ágúst. Haf­dís Guðrún Hilm­ars­dótt­ir, starfandi skólastjóri segir að húsnæðið verði eitt flottasta skólahús landsins þegar þau fái það afhent.

Fossvogsskóli var rýmdur í byrjun árs 2019 til að uppræta myglu en fljótlega eftir að kennsla hófst að nýju komu upp sömu vandamál. Var því ákveðið síðasta vor að engin starfsemi yrði í skólanum þar til framkvæmdum yrði lokið að fullu. Kennsla hjá 1. til 4. bekk fór fram í færanlegum kennslustofum á skólalóðinni en nemendur í 5. til 7. bekk voru fluttir í Korpuskóla í Grafarvogi.

<>

„Það voru alveg áskoranir í því að fara upp í Korpu en það gekk allt saman upp. Ég held að það séu allir gríðarlega spenntir að komast aftur hingað í skólann. Þó að við fáum ekki allar þrjár byggingarnar afhentar mun það rýma okkur þannig við getum verið öll hér saman,“ segir Haf­dís.

Vinna alla daga og allar helgar

Framkvæmdir standa nú yfir á tveimur húsum skólans sem tekin verða í notkun í haust. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum á þriðja húsinu verði lokið að fullu árið 2024.

„Hér er fjöldi manns að vinna alla daga og allar helgar til að við komumst inn fyrir skólabyrjun.“

Fossvogsskóli er síður en svo eina skólahúsnæðið þar sem mygla hefur fundist undanfarin ár. Mygla greindist í Hagaskóla í nóvember í fyrra. Framkvæmdir hófust strax, við að uppræta mygluna. Kom þá í ljós að húsið var verr farið en talið var. Gert er ráð fyrir að allt skólastarf verði komið aftur  á lóð Hagaskóla næsta vor.

Nemendur í áttunda og níunda bekk Hagaskóla þurftu í kjölfarið að færa sig um set en kennsla fór meðal annars fram á Hótel Sögu og í Ármúla. Að sögn Rúnars Inga Guðjónssonar sem stýrir framkvæmdunum var myglan útbreiddari en talið var í fyrstu. Því var ákveðið  að ráðast í heildarendurnýjun á húsinu sem taki einhvern tíma. Stefnt er á að framkvæmdum verði lokið næsta vor.

Ekki náðist í stjórnendur Hagaskóla en óljóst er hvernig kennslu verði háttað á næsta skólaári fyrir nemendur í áttunda og níunda bekk. 10. bekkur verður áfram í Hagaskóla í aðskildri byggingu.

Heimild: Ruv.is