Niðurstaða liggur fyrir í hönnunarútboði vegna nýbyggingar við Grensásdeild Landspítala. Um er að ræða nýja viðbyggingu endurhæfingarhúsnæðis Grensásdeildar sem verður um 3.800 fermetrar að stærð og mun rísa að vestanverðu við núverandi aðalbyggingu.
Fimm hópar voru valdir eftir forval til að keppa í útboði, en átta hópar skiluðu inn þátttökutilkynningu. Útboðið byggði á matslíkani þar sem mat var lagt á tillögur þátttakenda og gilti tillagan 60% af heildarstigafjölda, en kostnaðartilboð bjóðenda 40%.
Niðurstaðan er að hópur Nordic Office fékk hæstu stigagjöfina eða 100 stig, en hópurinn var með hæsta skor í matsþáttum sem og lægsta tilboðsverðið.
Heildarniðurstaða á mati og tilboðverði hópanna er eftirfarandi:
Hópur Lotu hlaut 59,76 heildarstig, kostnaðartilboð 358.291.676 kr. án vsk.
Hópur Nordic Office hlaut 100 heildarstig, kostnaðartilboð 212.844.000 kr. án vsk.
Hópur Úti og inni hlaut 58,20 heildarstig, kostnaðartilboð 324.946.500 kr. án vsk.
Hópur Mannvit hlaut 74,66 heildarstig, kostnaðartilboð 220.243.875 kr. án vsk.
Hópur THG, kostnaðartilboð var ekki opnað í samræmi við útboðsreglur og birtast því engin heildarstig.
Kostnaðaráætlun NLSH var 300.445.000 kr. án vsk.
Hópunum hefur verið kynnt niðurstaðan og útboðsverkefnið verður nú unnið áfram í samræmi við lög nr. 120/2016 um opinber innkaup áður en ákvörðun um samning verður tilkynnt.
Heimild: NLSH.is