Home Fréttir Í fréttum Vonast til að varmadælur spari 60-80% orku á Bakkafirði

Vonast til að varmadælur spari 60-80% orku á Bakkafirði

128
0
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Miklar framkvæmdir standa nú yfir á Hafnartanganum á Bakkafirði þar sem verið er að bora fyrir varmadælum í jörð. Dælunum fylgir töluverður orkusparnaður sem mun hafa áhrif á bæði heimili og fyrirtæki á svæðinu.

Varmadælur sem spara munu 60-80% orku

Bakkafjörður er einn þeirra staða sem skilgreindur er sem kalt svæði er þar eru hús kynt með raforku. Nú er að fara af stað tilraunaverkefni þar sem nota á varmadælur til að spara 60-80% orku. Svokallaða varmaholuverkefni er samstarf Langanesbyggðar, Orkusjóðs og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

<>

Nýverið hlaut verkefnið tíu milljóna króna styrk. „Verkefnið gengur út á að það er verið að bora tiltölulega grunnar holur til varmanýtingar fyrir varmadælur. Þetta er tækni sem er vel þekkt í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndunum, og mikið notuð. Hefur nú alveg fengið svolitla eldskírn hér á landi síðustu ár eða áratugi en ekki náð útberiðslu hingað til,“ segir Gunnar Már Gunnarsson, verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar.

Umhverfisvænar lausnir sem jafna aðstöðumun

Helsta ástæða lítillar útbreiðslu segir hann að sé mikill borkostnaður. Nú hafa verið fluttir inn minni borar og þar með hefur kostnaður lækkað. Í fyrsta fasa tilraunarverkefnisins er útveguð hitun fyrir Hafnartangann á Bakkafirði og svæðið þar í kring þar sem öll helsta þjónusta Bakkafjarðar er staðsett. Gunnar segir að orkusparnaðurinn eigi eftir að breyta heilmiklu fyrir alla starfsemi á svæðinu.

„Þetta er mikilvægt fyrir þetta sveitarfélag hér og sveitarfélögin í kring því það er alveg ljóst að þessi húshitunarkostnaður er mjög hamlandi fyrir bæði fyrirtæki og heimili. Þannig að það er mjög mikilvægt að finna þessar umhverfisvænu lausnir sem skila okkur einhverjum skrefum fram á við til að jafna þennan aðstöðumun,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is