Home Fréttir Í fréttum Bókuðu gistingu á hóteli í Reykjavík sem er ekki tilbúið

Bókuðu gistingu á hóteli í Reykjavík sem er ekki tilbúið

152
0
Svona leit Lækjargata 12 úr um miðjan júní. Mynd: Anton Brink

Starfsmaður hótels í miðbæ Reykjavíkur hefur greint DV frá því að til hennar hafi leitað erlendir ferðamenn í örvæntingu sem áttu bókaða gistingu Hotel Reykjavik Saga við Lækjargötu 12 en hótelið hefur ekki verið opnað og ekki hefur verið lögð lokahönd á bygginguna. Dæmi eru samt um að ferðamenn hafi bókað þarna gistingu í marsmánuði en komið síðan að lokuðum dyrum fyrir nokkrum dögum.

<>

Hinn ónefndi hótelstarfsmaður í miðbænum kannast við þrjú dæmi um þetta og kom hún fólkinu til aðstoðar. Eftir löng símtöl við keðjuna Íslandshótel, sem rekur (eða mun reka) Hotel Reykjavik Saga, hefur fólkinu verið komið fyrir á einhverjum af Fosshótelunum.

Konan greinir frá miðaldra hjónum þar sem eiginkonan komst í mikið uppnám og var gráti næst vegna óvissunnar. Einnig munu eldri hjón hafa lent í sambærilegum vandræðum.

Þetta fólk var frá Bandaríkjunum en einnig lenti kanadískur maður í sömu vandræðum. Einum var boðin gisting í Kópavogi eftir að hafa pantað gistingu sem var á verðbili sem gildir fyrir póstnúmerið 101.

Einum var sagt að hringja aftur á morgun en viðkomandi spurði þá: Hvar á ég að gista í nótt? Sem fyrr segir rættist úr málum allra þessara þriggja aðila eftir löng símtöl við Íslandshótel.

Hótelið verður opnað 15. júlí
DV ræddi málið við Hjört Valgeirsson, hótelstjóra hjá Íslandshótelum. Hann segir að opnun hótelsins við Lækjargötu hafi seinkað um hálfan mánuð:

„Það er rétt að opnuninni seinkaði hjá okkur. Við ætluðum að opna 1. júlí en það frestast til 15. júlí. Fyrir þessu eru margar ástæður en aðallega erfiðleikar í aðfangakeðjum og flutningum til landsins.“

Hjörtur segir að haft hafi verið samband við viðskiptavini sem höfðu bókað fyrir 15. júlí. „Við höfðum samband við alla og útveguðum gistingu á sambærilegu hóteli í borginni. Þetta voru sem betur fer ekki margar bókanir sem við þurftum að láta frá okkur, við vorum ekki búin að stútfylla hótelið frá fyrsta degi. Við fórum mjög varlega í það.“

En hvað með þá sem komu að tómum kofanum og áður eru nefndir? – Hjörtur segir að í örfáum tilvikum hafi verið bókað í gegnum þriðja aðila og skilaboðin komust ekki alla leið. Segist hann í raun bara vita um eitt slíkt dæmi, en ekki þrjú eins og ónefndur viðmælandi DV nefndi.

Ef reynt er að bóka herbergi núna á Hotel Reykjavik Saga fyrir 15. júlí kemur upp sú tilkynning að öll herbergi séu uppbókuð. Hjörtur segir að núna sé lokað á allar bókanir fram til 15. júlí.

Allt er hins vegar að verða klárt fyrir opnun hótelsins og tilhlökkun í mannskapnum. Staðfestir Hjörtur að allir sem voru svo ólánsamir að bóka gistingu á dögum fyrir opnunina hafi fengið sambærilega gistingu annars staðar.

Heimild: Dv.is