Home Fréttir Í fréttum Umferð hleypt á yfir nýtt ræsi yfir Þverá í Eyjafjarðarsveit

Umferð hleypt á yfir nýtt ræsi yfir Þverá í Eyjafjarðarsveit

140
0
Mynd; vikubladid.is

Umferð hefur verið hleypt á yfir nýtt ræsi yfir Þverá í Eyjafjarðarsveit. Ræsið skekktist mikið í gríðarlegum flóðum sem urðu fyrir réttu ári, 30. júní 2021. Kostnaður hefur ekki að fullu verið tekin saman vegna tjónsins, en áætlað að það nemi um það bil 130 til 150 milljónum króna.

<>

Gunnar Helgi Guðmundsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri segir að enn eigi eftir að setja upp vegrið en meðan það ástand varir sé umferðarhraði yfir ræsið tekinn niður. Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar frá Hvammstanga hefur unnið að verkinu.

Gunnar segir að vinna við verkefnið hafi staðið yfir í um það bil 6 mánaða skeið í allt. „Við byrjuðum á því að skoða hvaða lausnir væru bestar. Það kom til greina að byggja brú yfir ánna, en niðurstaðan varð sú að endurbyggja ræsið,“ segir hann.

20 stálstaurar reknir niður

Brjóta þurfti niður helming ræsisins eða um 30 metra og var boginn hreinsaður allur niður að jörð. Skipt var um jarðveg að hluta undir nýjum undirstöðum og reknir niður 20 stálstaurar sem voru frá 4 upp í 12 metra langir.

Þannig á að vera tryggt að það haldist þó svo að flóð komi í ánna. Gunnar segir að gera megi ráð fyrir að álíka kröftugt flóð og var í fyrrasumar komi á um það bil 100 ára fresti.

Nýjar undirstöður voru steyptar ofan á staurana og nýja ræsið byggt ofan á þá. Stórgrýti var dreift yfir botninn, bæði nýja og eldri hlutann, en haft var til hliðsjónar að skapa sem næst náttúrulegum aðstæðum í botninum til að trufla ekki fiskgengd. Meðan á verkinu stóð var ánni veitt framhjá enda auðveldaði það mjög framgang verksins.

Gömul brú frá árinu 1956 sem stendur skammt ofan við ræsið hefur að sögn Gunnars staðið vel fyrir sín en hún tók við umferð á meðan á viðgerðum stóð. „Það var auðvitað lán í óláni að brúin var þarna og gat tekið við umferðinni þennan tíma og því þurfti ekki að gera aðrar ráðstafanir með umferð um þessar slóðir,“ segir hann.

Heimild: Vikubladid.is