Home Fréttir Í fréttum Skipulagsnefnd tekur jákvætt í viðbyggingu við Hótel Blönduós

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í viðbyggingu við Hótel Blönduós

168
0

Skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar telur að mögulegt sé að byggja 400 fermetra viðbyggingu við Hótel Blönduós á Aðalgötu 6 með þeim hætti að tekið sé tillit til þess byggðamunsturs sem fyrir er. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar frá 25. nóvember síðastliðnum vegna erindis frá Lárusi B. Jónssyni um fyrirhugaða byggingu. Lárus hefur hug á að reisa húsið sem myndi standa sjálfstætt og vera á einni hæð en hluti af hótelinu.

<>

Í áætlunum Lárusar er gert ráð fyrir 18 gistiherbergjum í húsinu og yrðu þau öll á jarðhæð. Ef áformin ganga eftir gæti hótelið boðið upp á 34 gistiherbergi. Núverandi móttaka, eldhús og 170 manna salur hótelsins yrði nýtt fyrir bæði húsin. Lárus hefur sagt í fréttum Húnahornsins að stækkun hótelsins sé grundvallarmál fyrir rekstur þess og að störfum á Blönduósi gæti fjölgað um 12 til 15 manns yfir helstu ferðamannamánuðina.

Í bókun skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar kemur fram að Lárus þurfi að leggja fram tilskilin gögn svo hægt sé að framkvæma grenndarkynningu samanber ákvæði skipulagslaga.

Á fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar í síðustu viku var fundargerð skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar lögð fram til samþykkis. Þar lagði Oddný María Gunnarsdóttir fram bókun þar sem hún telur afgreiðslu nefndarinnar ekki samræmast stefnu sveitarstjórnar um að gamli bærinn verði „verndarsvæði í byggð“. Hörður Ríkharðsson lét færa til bókar að hann greiði þessum lið atkvæði sitt í trausti þess að framkomnar upplýsingar um lóðastærðir á byggingarreit standist.

Heimild: Húni.is