Home Fréttir Í fréttum Tvær hæðir í Sjávarútvegshúsinu hafa staðið auðar í eitt ár

Tvær hæðir í Sjávarútvegshúsinu hafa staðið auðar í eitt ár

201
0
Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu sem eitt sinn hýsti starfsemi Hafró. Fréttablaðið/Valli

Tvær af sex hæðum Sjávarútvegshússins við Skúlagötu hafa staðið auðar í heilt ár, en í sumar hillir loksins undir að framkvæmdir hefjist þar að nýju við gagngerar endurbætur á öllum sex hæðum hússins.

<>

Ráðgert er að allt að fimm ráðuneyti verði í húsinu, en þar eru fyrir matvælaráðuneytið og menningar-, ferða- og viðskiptaráðuneytið á fimmtu hæðinni.

Þykir brýnast að koma félagsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu fyrir í húsinu, en þau hafa verið á ítrekuðum hrakhólum eftir að mygla fannst í húsakynnum þeirra við Tryggvagötu og svo aftur í Skógarhlíðinni þangað sem þau fluttu úr miðborginni. Þau ráðuneyti eru nú í tímabundnu húsnæði í Síðumúla.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stóð upphaflega til að endurgera tvær hæðir hússins, en í kjölfar kosninga í haust og gagngerra breytinga á skipan ráðuneyta í upphafi þessa árs var ákveðið að húsið yrði allt endurgert. Hönnun og áætlanagerð lauk fyrir tveimur vikum og um helgina var útboð á endurgerð hússins auglýst í blöðum.

Samkvæmt sömu heimildum hafa orðið nokkrar tafir í hönnunarferlinu, meðal annars vegna vals á gólfefnum, hvort lagðar yrðu teppaflísar eða harðviður á gólfið – og höfðu teppaflísarnir vinninginn.

Það sem einkum hefur þó tafið verkið er sú grundvallarbreyting að ákveðið skyldi að endurgera allt húsið. En ekki einungis aðra og þriðju hæðina.

Þá gera nýjar áherslur í nýtingu skrifstofurýmis verkefnið flóknara en ella.

Niðurstaða útboðs á lokafrágangi hæðanna fæst í lok júní og munu framkvæmdir hefjast að nýju að afloknum samningum við verktaka.

Heimild: Frettabladid.is