Laus störf í byggingariðnaði hafa frá árinu 2019 verið 6,4% að meðaltali, sem eru um eitt þúsund störf. Í hagsjá Landsbankans segir að greinin skeri sig frá annarri starfsemi að því leyti að litlar sviptingar hafa verið og vantað hafi töluverðan fjölda til starfa allt tímabilið.
Mikill skortur er á íbúðum um nær allt land og sérstaklega vantar húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Starfshópur á vegum forsætisráðherra lagði til í síðustu viku að til þess að mæta eftirspurn yrðu byggðar um 3-4000 íbúðir á ári, næstu tíu ár.
Hilmar Harðarsson, formaður sambands iðnfélaga, segir það skjóta skökku við að biðlistar séu í nám í iðngreinum þegar það bráðvanti menntaða iðnaðarmenn til starfa.
„Á síðasta ári voru um það bil 700 nemar sem komust ekki inn í iðnskóla. Oft eru það menn sem eru þá hálfnaðir að læra og fá ekki inn í skólana. Við erum alltaf að tala um að efla iðn- og starfsnám. Þá þarf virkilega að taka á og byggja skóla og útvega Tækniskólanum góða lóð á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Hilmar.
En upplifir þú það þannig að það væri hægt að fylla í þessi lausu störf í byggingariðnaðinum á næstu árum, að það verði ekki þannig að það verði skortur á fólki? „Ja, það eru 700 manns sem vilja læra okkar greinar. Það myndi létta verulega undir og þá þyrfti að flytja inn minna vinnuafl. “
Heimild: Ruv.is