Home Fréttir Í fréttum Fjölskylda ráðherra vill byggja á svæði sem aðrir fengu ekki að byggja...

Fjölskylda ráðherra vill byggja á svæði sem aðrir fengu ekki að byggja á

303
0
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Mynd: VÍSIR/VILHELM

Einkahlutafélag sem stofnað var af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra og eiginkonu hans hefur fest kaup á einbýlishúsi og 3,2 hektara lóð í Garðabæ. Jón gekk úr eigendahóp félagsins daginn fyrir kaupin.

<>

Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar.

Einkahlutafélagið Hraunprýði byggingar ehf. var stofnað í mars á þessu ári af Jóni Gunnarssyni og Margréti Höllu Ragnarsdóttur, en til að byrja með áttu þau hvort um sig helmings hlut í félaginu.

Í lok apríl festi félagið kaup á lóð og einbýlishúsi við Hrauntungu í Garðabæ á 300 milljónir króna. Daginn fyrir kaupinn hafði Jón farið úr eigendahóp félagsins.

Jón er þó enn tengdur Hraunprýði byggingar ehf. þar sem eiginkona hans á 26 prósenta hlut í félaginu. Þá er sonur hans, Gunnar Bergmann Jónsson varamaður í stjórn félagsins og eiginkona Gunnars, Halla Hallgeirsdóttir, aðalmaður í stjórn.

Loforð um áframhaldandi skógrækt

Lóðin var áður eign Dalsnes ehf. sem er í eigu Ólafs Björnssonar. Þegar hann eignaðist lóðina hafði hann hugsað með sér að byggja á svæðinu en fékk ekki leyfi frá bæjaryfirvöldum í Garðabæ.

Ólafur hefur reynt að fá áform sín samþykkt í mörg ár, nú síðast árið 2020, en alltaf án árangurs.

Hjálmar Bárðarson, fyrrum siglingamálastjóri, byggði upp skógrækt á svæðinu á árum áður og vilja bæjaryfirvöld ekki svíkja þau loforð sem Hjálmari voru gefin.

Hvorugur kannast við breytingar

Hraunprýði byggingar ehf. stefnir á að byggja 30-40 hús á svæðinu og þar sem ekki hefur áður fengist leyfi fyrir framkvæmdunum eru kaupin kölluð „300 milljóna veðmál“ í umfjöllun Stundarinnar.

Stundin ræddi bæði við Gunnar Einarsson, fráfarandi bæjarstjóra í Garðabæ, og Almar Guðmundsson sem leiddi Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru um seinustu helgi.

Hvorugur kannast við það að einhverjar breytingar eigi eftir að eiga sér stað á skipulagi svæðisins.

Nánar má lesa um málið á vef Stundarinnar.

Heimild: Visir.is