Home Fréttir Í fréttum Grímseyingar byrjaðir að reisa nýja kirkju

Grímseyingar byrjaðir að reisa nýja kirkju

196
0
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Framkvæmdir við nýja kirkju í Grímsey hófust í gær, aðeins átta mánuðum eftir að kirkjan brann til grunna. Húsfreyja í Grímsey segist vongóð um að fara á jólatónleika í nýrri kirkju strax á þessu ári.

Eru enn að safna

Það er óhætt að segja að Grímseyingar hafi vaknað upp við vondan draum og orðið fyrir áfalli síðasta haust þegar eldur kom upp í  Miðgarðakirkju. Kirkjan er tryggð fyrir 30 milljónir og ríkisstjórnin hefur styrkt verkefnið um 20 milljónir. Þá hafa hinir ýmsu viðburðir farið fram þar sem safnast hafa nokkrar milljónir.

<>

En betur má ef duga skal því nýja kirkjan kostar 100 til 120 milljónir. En þrátt fyrir að enn vanti nokkrar milljónir til að fjármagna verkefnið var hafist handa strax í morgun.

„Mesta málið er að koma einhverju út í þessa eyju”

Hilmar Páll Jóhannesson, byggingameistari kom frá Reykjavík til þess að byggja kirkjuna. „Við erum nú bara að byrja í dag en hún er aðeins búin að vera á floti af því að það fundust einhverjar fornleifar. Þannig að við erum aðeins að hnika henni til og sjá hvar við staðsetjum þetta, alveg 100% rétt. Púðinn kláraðist bara í gærkvöldi,” segir Hilmar.

Stefnt er að því að kirkjan verði tilbúin 22. september en þá verður liðið eitt ár frá því að sú eldri brann. „Mesta málið er alltaf að koma einhverju út í þessa eyju, flutningar eru erfiðir að koma þessu hingað. Það þurfi meira að segja að flytja mölina frá landi því það er engin möl á þessari eyju.”

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV

Vongóð um að fara á jólatónleika í vetur

Já þó öll efni séu ekki á staðnum og Grímsey ekki í alfaraleið eru heimamenn vongóðir. Ragnhildur Hjaltadóttir, húsfreyja í Grímsey sér fram á jólatónleika í nýrri kirkju, strax á þessu ári. „Við erum bara alsæl, bara gaman hvað þetta gengur hratt. Við höfum fengið styrki allstaðar að og það virðist vera mikill samtakamáttur í að koma hér upp nýrri kirkju sem fyrst og við eru mjög spennt og þakklát,” segir Ragnhildur eða Gagga eins og hún er jafnan kölluð.

Í september á hún að vera klár, helduru að það sé óhætt að bóka fermingar hérna strax næsta vor?

„Ekki spurning, flott jólamessa og vonandi bara tónleikar og eitthvað skemmtilegt.”

Heimild: Ruv.is