Home Fréttir Í fréttum Breytt fjármögnun lækkaði tilboð í Hornafjörð um 2,2 milljarða króna

Breytt fjármögnun lækkaði tilboð í Hornafjörð um 2,2 milljarða króna

167
0
Nýja brúin yfir Hornafjarðarfljót verður 250 metra löng. Samkvæmt útboðsskilmálum skal verkinu að fullu lokið haustið 2025. VEGAGERÐIN

Lægsta boð í lagningu nýs hringvegar um Hornafjörð lækkaði um 2,2 milljarða króna við það að langtímafjármögnun var undanskilin. Þrátt fyrir hökt í þessu fyrsta útboði verkefna í einkafjármögnun telur innviðaráðherra að annað verk í ferlinu, ný Ölfusárbrú, verði á áætlun og tilbúin árið 2025.

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en nýr hringvegur um Hornafjörð var fyrsta verkið sem fór í útboð á grundvelli laga um samvinnuverkefni. Tilboð í Hornafjörð með einkafjármögnun reyndust hins vegar svo hátt yfir kostnaðaráætlun að Vegagerðin sá sér þann kost vænstan að hefja nýtt útboð með breyttri útfærslu fjármögnunar, þannig að verktaka væri einungis gert að fjármagna verkið á verktíma en langtímafjármögnun undanskilin.

Ný leið yfir Hornafjörð styttir hringveginn um tólf kílómetra. Verkinu fylgja alls fjórar nýjar brýr og nítján kílómetrar af nýjum vegum.
GRAFÍK/STÖÐ 2

Núna liggja niðurstöður fyrir í síðara útboðinu. Ístak átti lægsta boð, eins og í fyrra útboðinu, upp á nærri 6,3 milljarða króna, sem er ellefu prósentum yfir 5,7 milljarða króna kostnaðaráætlun. Tilboð ÞG-verks og Íslenskra aðalverktaka reyndust mun hærri, 29 og 40 prósent yfir kostnaðaráætlun.

Þrjú tilboð bárust í síðara útboðinu en aðeins tvö í því fyrra.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Þegar fyrra og síðara útboðið eru borin saman sést að kostnaðaráætlun lækkar um 1.300 milljónir króna við það að langtímafjármögnun er tekin út, úr tæpum sjö milljörðum króna niður í 5,7 milljarða. Athyglisvert er að lægsta boð, frá Ístaki, lækkar enn meira, eða um tæpa 2,2 milljarða króna, úr 8,5 niður í 6,3 milljarða króna.

Hlutfall lægsta boðs af kostnaðaráætlun lækkar úr 122 prósentum niður í 111 prósent.

Hér sést hvernig kostnaðaráætlun og lægsta tilboð Ístaks breyttust við það að langtímafjármögnun væri tekin út úr verkinu.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Í fyrra útboðinu var verklokadagur ekki fastsettur en núna er áskilið að verkinu skuli að fullu lokið eigi síðar en 1. október 2025. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar verður langtímafjármögnun boðin út sérstaklega en ekki liggur fyrir hvenær.

Þetta fyrsta útboð vísar veginn að þeim sex verkefnum sem tilgreind eru í lögum um samvinnuverkefni en tvö önnur eru einnig komin í útboðsferli. Þannig áformar Vegagerðin að auglýsa forval vegna vegarins yfir Öxi fyrir lok þessa mánaðar og vegna Ölfusárbrúar í næsta mánuði.

Teikning af nýrri Ölfusárbrú austan Selfoss.
GRAFÍK/VEGAGERÐIN.

En óttast ráðherra vegamála að þetta hökt verði til þess að ný Ölfusárbrú verði seinna á ferðinni en áformað hefur verið?

-Mun þessu seinka?

„Ekki mikið. Ekki sem sagt lokatímanum. En ég gæti trúað því að hún yrði tilbúin 2025. Og ég hefði gjarnan viljað að hún yrði tilbúin í gær. Ég sé bara hvernig umferðin er að aukast,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Heimild: Visir.is

Previous articleMinna malbikað en metárið í fyrra
Next article01.06.2022 Landspítali BUGL – Rif og förgun innanhúss