Home Fréttir Í fréttum Fjölgun nýbygginga kallar á erlent vinnuafl

Fjölgun nýbygginga kallar á erlent vinnuafl

124
0
Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Erlendum iðnaðarmönnum, sem koma hingað til að vinna, fer stöðugt fjölgandi. Hátt í fimm hundruð erlendir verkamenn eru skráðir hjá starfsmannaleigum og fjölgaði um hundrað milli mánaða. Skýringuna er meðal annars að finna í auknum verkefnum við nýbyggingar.

Helmingi færri íbúðir til sölu

Íbúðum í sölu hefur fækkað um meira en helming á einu ári, samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í mars í fyrra voru í fyrsta sinn innan við tvö þúsund íbúðir til sölu á landinu, en nú eru innan við þúsund íbúðir fáanlegar.

<>

Frá 2020 hefur auglýstum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr um það bil 2.000 í um 450, og á landsbyggðinni hefur íbúðum fækkað úr 800 í 250.

Samkvæmt þarfagreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vantar um það bil 3.300 íbúðir nú þegar. Um 5.800 íbúðir eru í byggingu, en þyrftu að vera um 8.000. Þá þarf að byggja um nítján hundruð íbúðir á ári næstu tuttugu árin, eða ríflega 38 þúsund íbúðir.

Erlendum verkamönnum fjölgar

En nær iðnaðurinn að anna þessum verkefnum? Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir ljóst að það þurfi fleiri hendur og fleiri lóðir. Það kallar á erlent vinnuafl.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fer erlendum verkamönnum stöðugt fjölgandi milli mánaða. Á þriðja tug fyrirtækja hefur hátt í tvö hundruð erlenda verkamenn á sínum snærum.

Mun fleiri koma til landsins gegnum starfsmannaleigur, en hátt í fimm hundruð starfa hjá sautján starfsmannaleigum. Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara fer einnig minnkandi, þeim hefur fækkað um ríflega sex hundruð á atvinnuleysisskrá.

Heimild: Ruv.is