Home Fréttir Í fréttum Sölutími íbúða aldrei styttri

Sölutími íbúða aldrei styttri

120
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson

Í mars seldist í fyrsta sinn meira en helmingur íbúða yfir ásettu verði.

<>

Meðalsölutími íbúða í mars var 35,8 dagar á höfuðborgarsvæðinu og 44,1 dagur í nágrannasveitarfélögum. Sölutími hefur aldrei mælst styttri, að því er kemur fram í nýrri mánaðarlegri skýrslu HMS. Fjöldi útgefinna kaupsamninga fer áfram fækkandi sé horft á árstíðaleiðréttan fjölda.

Í mars seldist 51,2% íbúða yfir ásettu verði og er það í fyrsta sinn sem meira en helmingur íbúða fer yfir ásettu verði. Í febrúar fór þetta hlutfall í fyrsta sinn yfir 40%. Til samanburðar þá hefur þetta hlutfall verið á bilinu 7-15% í eðlilegu árferði.

„Sérstaklega virðist vera mikil ásókn í íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu en í mars seldust 61,2% íbúða yfir ásettu verði miðað við þriggja mánaða meðaltal en aðeins 24% undir ásettu verði,“ segir í skýrslunni.

Um 52% sérbýla á höfuðborgarsvæðinu seldust yfir ásettu verði sem er líka met og á landsbyggðinni seldust um 45% íbúða í fjölbýli og 26% sérbýla yfir ásettu verði.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Lítið framboð

Tæplega þúsund íbúðir voru auglýstar til sölu á landinu öllu í byrjun aprílmánaðar og er það sambærilegt og í byrjun febrúar, þegar framboðið fór í fyrsta sinn undir þúsund íbúðir. Til samanburðar fór fjöldi íbúða til sölu í fyrsta sinn niður fyrir 2.000 íbúðir í mars 2021 en þegar mest lét í maí árið 2020 voru nærri 4.000 íbúðir voru til sölu.

Um 500 íbúðir voru auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu í byrjun apríl, rúmlega 200 í nágrannasveitarfélögum þess og tæplega 300 annars staðar á landsbyggðinni. Fram kemur að fjöldi íbúða sem hafa verið settar á sölu hafi verið svipaður og fjöldi íbúða sem tekinn hefur verið úr sölu.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Útgefnir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu voru 923 talsins í mars. Hagdeild HMS bendir á að þrátt fyrir að kaupsamningum hafi fjölgað undanfarna tvo mánuði þá hefur þeim þó farið fækkandi ef horft er á árstíðaleiðréttan fjölda. Í mars í fyrra voru kaupsamningar um íbúðarhúsnæði ríflega 80% fleiri en þá var met slegið í fjölda kaupsamninga.

„Tölurnar verða mögulega eitthvað færðar upp á við eftir því sem þinglýsingum vindur fram en ljóst er að fjöldi kaupsamninga er að dragast saman. Lítið framboð íbúða til sölu útskýrir þennan samdrátt líklega að mestu.“

Heimild: Vb.is