Home Fréttir Í fréttum Byggja 90 þúsund fer­metra á Blika­stöðum

Byggja 90 þúsund fer­metra á Blika­stöðum

88
0
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. Aðsend mynd

Gert er ráð fyrir 90 þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði í um 30 byggingum í atvinnukjarna Reita á Blikastöðum.

Reitir fasteignafélag og Mosfellsbær undirrituðu í gær samkomulag um uppbyggignu á nýjum atvinnukjarna í landi Reita á Blikastöðum, á svæði við Vesturlandsveg milli Úlfarsfells og Korpu.

Skipulag atvinnukjarnans gerir ráð fyrir 90 þúsund fermetrum af atvinnuhúsnæði í um 30 byggingum. Áætlað er að gatnaframkvæmdir geti hafist vorið 2023 og að byggingarframkvæmdir fyrsta áfanga hefjist strax í kjölfarið.

Í tilkynningu segir að atvinnukjarninn verði skipulagður fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi eins og skrifstofur, verslun og þjónustustarfsemi. Þá taki skipulagið mið af fyrirhugaðri Borgarlínu í gegnum svæðið.

Samkomulagið rammar inn samstarf Mosfellsbæjar og Reita um afgreiðslu deiliskipulags og gatnagerð í samræmi við skipulagstillögur sem Reitir hafa unnið að í samstarfi við sveitarfélagið á umliðnum árum.

Heilmikil uppbygging er fram undan á Blikastaðalandi en Mosfellsbær og Arion banki tilkynntu í gær um endanlegt samkomulag um uppbyggingu íbúðabyggðar á landinu. Gert er ráð fyrir 3.500-3.700 íbúðum, með blöndu fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita:

„Ánæstu árum munu Reitir standa að uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Landið er ákaflega vel staðsett og nýtur mikilla umhverfisgæða. Svæðið hefur verið skipulagt með umhverfi og sjálfbærni að leiðarljósi, sem mun án efa laða til sín framsýn fyrirtæki sem vilja skapa fyrsta flokks aðstöðu fyrir starfsfólk og viðskiptavini í grænu umhverfi.“

Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita:

„Þessi samningur er mikilvægur áfangi fyrir okkur hjá Reitum því nú fer verkefnið af skipulagsstigi yfir á framkvæmdastig. Samhliða afgreiðslu á nýju deiliskipulagi getur gatnahönnun hafist ásamt hönnun bygginga í fyrsta áfanga.“

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:

„Við hjá Mosfellsbæ erum mjög ánægð með þróun þessa verkefnis og teljum að hugmyndir Reita falli vel að áherslum okkar og séu til þess fallnar að mæta framtíðar kröfum atvinnulífsins um lifandi og opna atvinnukjarna. Áherslur Reita á sviði umhverfismála falla vel að áherslum Mosfellsbæjar sem hefur verið leiðandi sveitarfélaga á sviði umhverfismála enda erum við í nánum tengslum við náttúruna og landið og styðjum öll góð áform í þeim efnum. Hin nýi atvinnukjarni verður síðan vel tengdur við stórefldar almenningssamgöngur sem og nýja íbúabyggð í landi Blikastaða. Þessi uppbygging Reita er því einkar ánægjuleg og mun án alls efa stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum í Mosfellsbæ.“

Heimild: Vb.is

Previous articleNý þjóðarhöll verði klár 2025
Next articleUndirbúningur að Sundabraut er hafinn