Home Fréttir Í fréttum Ljúka breikkun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur

Ljúka breikkun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur

176
0
Kaflinn sem núna á að tvöfalda er 5,6 kílómetra langur milli Straumsvíkur og Hvassahrauns. VILHELM GUNNARSSON

Langþráð breikkun Reykjanesbrautar milli Straumsvíkur og Hvassahrauns er á leið í útboð og stefnt að því að fimm milljarða króna framkvæmdir hefjist um mitt sumar. Með verkinu lýkur tvöföldun leiðarinnar milli Reykjavíkur og Suðurnesja.

<>

Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2. Kaflinn er 5,6 kílómetra langur og sá síðasti með aðeins einni akrein í hvora átt á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur.

„Þarna erum við að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, sem lengi hefur staðið til, og margir kallað eftir,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

Óskar Örn Jónsson er forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
RÚNAR VILBERG HJALTASON

Kaflinn þykir það varasamur að þar er aðeins leyfður 80 kílómetra hraði, meðan 90 kílómetra hraði er leyfður á öðrum köflum þar sem umferðareyja og vegrið skilja að akstursstefnur.

„Að sjálfsögðu mun þetta gjörbreyta öryggismálum fyrir vegfarendur.“

Þetta verður með stærri verkum í vegagerð hérlendis næstu árin.

„Heildarfjárheimildin er ríflega fimm milljarðar,“ segir Óskar.

Þegar framkvæmdum lýkur sumarið 2025 verður öll Reykjanesbrautin milli Reykjavíkur og Suðurnesja orðin tvöföld með aðskildum akstursstefnum.
EGILL AÐALSTEINSSON

Nýjar akreinar verða sem fyrr lagðar sunnan núverandi vegar. Stefnt er að því að verkið verði unnið í tveimur áföngum þannig að unnt verði að taka vestari hlutann í notkun fyrr.

Það flækti undirbúning að Hafnarfjarðarbær hafði fyrir um tuttugu árum selt álverinu í Straumsvík land við veginn þegar áform voru um stækkun ÍSAL en þá stóð til að færa veginn ofar í hraunið. Þegar fallið var frá nýrri veglínu fyrir tveimur árum þurfti að breyta skipulagi og kaupa landið til baka.

„Þessari vinnu er allri lokið með farsælum hætti,“ segir Óskar.

Frá Reykjanesbraut við Straumsvík.
EGILL AÐALSTEINSSON

Eftirlitsþátturinn var boðinn út í síðasta mánuði en Óskar segir verkið sjálft verða auglýst núna í júní. Framkvæmdir gætu farið á fullt um mitt sumar.

„Um leið og undirskrift hefur átt sér stað um miðjan júní þá er verktaka heimilt að hefja framkvæmdir og koma sér fyrir, í þessa framkvæmd sem tekur um þrjú ár.“

Og það er komin dagsetning um verklok: 30. júní 2025.

Heimild: Visir.is