Home Fréttir Í fréttum Arkitektahópur vinnur Turner verðlaunin

Arkitektahópur vinnur Turner verðlaunin

46
0
Photograph: Andy Buchanan/AFP/Getty

Turner verðlaunin

<>

Bresku Turner myndlistarverðlaunin voru veitt í gærkvöldi en verðlaunaafhendingin sem slík er einn af mikilvægustu viðburðum menningarársins í Bretlandi og hefur verið undanfarin ár. Sent er beint út í sjónvarpi og fjölmiðlaumfjöllunin er alltaf nokkuð mikil. Nú brá hins vegar svo við að afhendingin fór ekki fram í sölum Tate safnasamstæðunnar í London eða annars staðar í húsakynnum hennar í Bretaveldi eins og venjan er, heldur fór hún fram norður í Skotalandi. Partíið var í Tramway listrýminu í Glasgow, en þetta er í fyrsta sinn sem afhendingin fer fram þar norður frá.

Verðlaunin eru sem fyrr ætluð listamanni undir fimmtugu fyrir framúrskarandi sýningu eða verkefni á undangengnu ári. Fjórir aðilar voru á stutta-listanum eins og hann er kallaður að þessu sinni: Bonnie Camplin var tilnefnd fyrir verkið The Military Industrial Complex í South London Gallery sem fjallaði um samsæri og vænisýki og sameinaði hugsun úr eðlisfræði, heimspeki, sálfræði, göldrum og skammtafræði samkvæmt því er sjá má á vef verðlaunanna. Janice Kerbel var einnig tilnefnd í raun fyrir eins konar kammeróperu sem heitir DOUG2014 og Nicole Wermers var tilnefnd fyrir skúlptúr innsetningu í galleríi í London þar sem hátíska og módernísk hönnun komu saman og hugmyndir kviknuðu um lífstíl, stéttskiptingu, neyslumenningu og vald.

Assemble

Það var hins vegar fjórði tilnefndi aðilinn sem hlaut hnossið að þessu sinni í gærkvöldi, ekki listamaður eða hreinræktaður hópur listamanna ef út í það er farið, heldur Arkitektastofa eða arkitektahópur sem heitir Assemble og starfar í London. Verðlaunaféð er 25 þúsund pund sem vitanlega er þó nokkuð þegar um einn listamann er að ræða og verðlaunin hafa vitanlega skotið mörgum sigurvegaranum upp á stjörnuhiminn myndlistarinnar, en í Assemble hópnum er 18 arkitektar, listamenn og hönnuðir.

Assemble hópurinn vinnur verk sín í nánu samstarfi við aðila úr nærumhverfinu á hverjum stað þegar þau taka að sér eða skapa sér verkefni. Verkefnin snúast oftar en ekki um endurmótun gamalla og jafnvel niðurnýddra svæða í borgum Bretlands og er hugmyndafræðin allt önnur en hjá þeim stórfyrirtækjum sem hafa tekið að sér að endurmóta borgarhverfi víðs vegar um landið, en eins og margir vita hafa t.a.m. miðborgir í Breltandi orðið sífellt einsleitari eftir að kaldhömrun kapitalsins hefur farið um þær höndum.

Nálgun Assemble hópsins er þverfagleg og þó að manngert rými sé þeirra meginviðfangsefni þá koma vinnubrögðin og hugmyndfræðin úr hönnum, arkitektúr og myndlist. Starfsemi hópsins hófst fyrir aðeins 5 árum en hópinn mynda í dag, eins og áður sagði, 18 einstaklingar. Fyrsta verkefnið snérist um það að breyta yfirgefinni bensínstöð í tímabundið kvikmyndahús í Clerkenwell hverfinu í London. Takmarkið hjá Assemble er alltaf að reyna að brúa hið dæmigerða bil sem yfirleitt er til staðar á milli almennings og þeirrar vinnu sem fer fram við að móta rými fyrir þann sama almenning. Aðferðarfræðin er oft óhefðbundin, verkefnin kvikna oft hjá hópnum frekar en að hann taki að sér ákveðin verkefni fyrir yfirvöld og þannig er oft snúið út úr hefðbundinni hírarkíu í sambandi verkkaupanda og verktaka.

Granby hverfið

Verðlaunaverkefnið sem Assemble hópurinn hlýtur Turner verðlauin fyrir er í Granby hverfinu í suðurhluta Liverpoolborgar. Þar hafa yfirvöld í gegnum árið komið upp með áætlanir um enduruppbyggingu og tiltekt í hverfinu, með fyrirskipunum að ofan og niður. Hverfið hefur meira og minna verið brotið niður til að byggja það upp aftur, fyrir utan fjórar götur þar sem íbúar hafa barist gegn slíkum áformum og náð að bjarga húsum sínum. Það er með þessum íbúum sem Assemble hópourinn hefur unnið við að bæta og lífga upp á umhverfið með því sem fyrir er. Íbúarnir gengu sjálfir í að hreinsa göturnar, mála yfirgefin hús og Assemble hópurinn hefur unnið með þeim að lausnum fyrir yfirgefin íbúðarhús og verslunarrými í hverfinu.

Vinnustofa hefur einnig verið sett upp þar sem unnið er að listmunagerð og hönnun sem nýtt er til endurbótana og seld til ábata fyrir fyrir hverfið. Þessi vinnustofa hefur verið sett upp á Turnerverðlauna sýningunni í Tramway í Glasgow, en í hverfinu sjálfu í Liverpool hefur einnig verið komiið upp markaði og umhverfið allt tekið nokkuð í gegn þó að verkefninu sé ekki lokið enn.

Granby hverfið er því allt orðið byggilegra og meira aðlaðandi en áður og einnig meira aðlaðandi en hin endursköpuðu hverfi í kring þar sem borgaryfirvöld í samvinnu við peningaöflin hafa komið að málum. Sjálfbærni, endurnýting og þátttaka íbúanna í endurmótun þeirra eigin umhverfis eru lykilþættir í nálguninni.

En athyglin sem Turner verðlauna tilnefningin hefur skapað er samt dálítið snúin, ekki síst fyrir íbúa í Granby hverfisins. Alsjáandi auga fjölmiðlanna hefur þannig beinst að vinnu hópsins með íbúum svæðisins og þetta virðist skapa spennu í kringum verkefnið. Áfram þarf að viðhalda þeirri lífrænu vinnu sem þarna fer fram.

„Þetta verkefni þýðir margt fyrir marga,“ segir einn af talsmönnum fyrirtækisins. „Fyrir sumum er þetta list, en hjá öðrum snýst þetta einfaldlega um að bjarga hverfinu sínu.“ Íbúarnir eru hrifnir að þessu litla verkefni sem dæmi um það að venjulegt fólk geti ýmislegt þegar það standi saman og tali einum rómi.

Verkefnið snýst um það hvernig borgir geta þróast neðan frá og upp í landi þar sem miðborgir hafa orðið einsleitari og þar sem fjármagnsöflin eru gjörn á að taka umdeildar og oft vondar ákvarðanir þegar kemur að endurbótum á manngerðu umhverfi. Og meðlimir hópsins eru líka hrifnir að félagslegri samheldni íbúanna.

Arkitektúr fær myndlistarverðlaun

En verðlaunin í gær marka líka tímamót í sögu Turner verðlaunanna, sem vitanlega eru kennd við enska rómantíska málarann Joseph Mallord William Turner. Þetta er í fyrsta sinn sem hópur hlýtur verðlaunin í 31 árs sögu þeirra og verkefni Assemble hafa einnig snúist í meiri mæli um arkitektúr og hönnun en um myndlist. En vitanlega eru það samfélagslegu áhrifin, áhrifin á íbúana í Granby hverfinu sem vega þungt. Og einmitt þessi þungamiðja: þátttaka venjulegs fólks í umbreytingu á sínu eigin umhverfi, virðist mælast vel fyrir.

Aidrian Searle, myndlistarblaðamaður The Guardian, segir að þátttaka Assemble í Turnerverðlauna sýningunni hafi vaxið í huga sínum frá því að sýningin opnaði. Hann segir úrslitin gefa til kynna eins konar tilfærslu listarinnar úr rými sýningarsalarins út í lífið, út í opinbert rými. Vinna hópsins og verðlaunin sýni líka óþol margra gagnvart peningahyggju listmarkaðarins í Bretlandi og því að listamenn séu í sífellu að framleiða listhluti fyrir þann sama markað. Það sem Assemble hafi fram að færa sé ekki listaverk heldur eins konar módel fyrir áframhaldandi vinnu sem fari fram allt annars staðar en í heimi listarinnar, út í lífinu sjálfu.

Og þrátt fyrir upphaflegar efasemdir sínar um það að Assemble hafi verið tilnefnt til Turner verðlaunanna virðist Adrian Searle í The Guardian sáttur við úrslitin. Það að vinna verðlaunin sé ekki endilega bundið vinnu eins listmanns og dómnefndir líti heildstætt á verkefnin og áhrifin sem þau hafa. Assemble hópurinn geri ekki sýningar inn í gallerí og hunsi í raun listmarkaðinn algjörlega. Hins vegar sýni hópurinn fram á að listamenn og arkitektar geti átt í mikilvægu samtali við samfélög og unnið á skapandi hátt með almenningi. Verk þeirra megi skoða sem baráttu gegn félagslegri aðgreiningu ólíkra hópa og baráttu gegn yfirgangi nýfrjálshyggjunnar í samtímanum.

Krúttlegir arkitektahópar redda ekki heiminum

En Searle líkur umfjöllun sinni hins vegar með því að benda á augljósa hættu að stjórnvöld líti á slík verkefni sem rökstuðning fyrir því að draga til baka í einn meiri mæli opinberan stuðning við endurmótun og umbreytingu borgarlandslagsins, einhverjir krúttlegir arkitektahópar muni hvort eð er sjá um þetta. En í borgum Bretlands eru vitanlega ekki allir íbúar í öllum niðurnýddum hverfum svo heppnir að fá hóp á borð við Assemble til samstarfs við sig upp úr þurru.

En verk Assemble hópsins séu hins vegar frumleg og snjöll og hópurinn sé vel að sigrinum kominn. Erindi hópsins sé skýrt og því er Searle slétt sama hvort þetta sé list eða ekki. Sigurinn í gær sanni skýrt og þarft erindi Assemble hópsins.

Heimild: Rúv.is

Previous articleTalið er að tjónið fyrir Landsnet verði líklega yfir 100 milljónir króna
Next articleByggingakrani valt í Ásholti í Reykjavík í dag