Home Fréttir Í fréttum Áhorfendur sjá ekki allan keppnisvöllinn í milljarðahöllinni í Garðabæ

Áhorfendur sjá ekki allan keppnisvöllinn í milljarðahöllinni í Garðabæ

403
0
Aðstaðan í Miðgarði er frábær fyrir iðkendur og þjálfara en áhorfendur mæta afgangi.

Miðgarður, nýtt fjölnota íþróttahús í Garðabæ er komið í fulla notkun og hefur gjörbreytt æfingaðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur í bænum.

<>

Auk æfinga fer talsvert af æfingaleikjum fram í húsinu en áhorfendur á þeim leikjum hafa rekið sig á það að ef setið er í einu af hinum 800 sætum sem í boði eru á 2.hæð hússins þá sést aðeins um 80-85% af vellinum.

Samkvæmt svörum frá bænum var þó ekki um nein mistök að ræða heldur hafi byggingareiturinn verið svo takmarkandi fyrir breidd salarins að þetta var eina raunhæfa lausnin. Einblínt var á þarfir þjálfara og iðkenda en áhorfendur í raun látnir mæta afgangi.

Aðeins ætlað fyrir æfingaleiki

Íþróttahúsið glæsilega kostaði um 4 milljarða króna, alls um 18.200 fermetrar, og er stærsta framkvæmd sem sveitarfélagið Garðabær hefur lagt í. Innandyra er fullkominn keppnisvöllur í fullri stærð en það vakti talsverða athygli þegar í ljós kom að höllin var ekki lögleg undir keppnisleiki á hæsta stigi. Ástæðan var sú að lofthæð hallarinnar er aðeins 14 metrar en þyrfti að vera rúmlega 20 metrar til þess að uppfylla allar kröfur.

Í svari frá Garðabæ á sínum tíma kom fram að markmið byggingarinnar hefi verið að búa til bestu mögulegu æfingaaðstöðu en um leið uppfylla þarfir fyrir æfingaleiki og aðra viðburði sem ekki kerfjast meiri lofthæðar. Það hafi því ekki verið markmiðið að búa svo um hnútana að keppnisleikir á efsta stigi gætu farið þar fram innandyra.

Byggingareiturinn takmarkandi

Eins og áður segir hafa þó áhorfendur á æfingaleikjum rekið sig á að sjónlína þeirra á völlinn er verulega skert. Í svari við fyrirspurn DV ítrekar Kári Jónsson, íþrótta-, tómstunda- og forvarnafulltrúi Garðabæjar að við innra skipulag hafi fyrst og fremst miðast við iðkendur og þjálfara við æfingar og keppni.

„Áhorfendur sem mæta geta setið eða staðið í áhorfendabekkjum eða fært sig til hliðar til að vera nær handriðinu og þannig sýnt tillitssemi við þá sem sitja. Sjónlína er skert niður á hliðarlínuna næst þeim sem eru í stúkusætum enda ill mögulegt að tryggja 100% yfirsýn allra,“ segir Kári.

Til vinstri má sjá áhorendasæti á annarri hæð hússins. Sé setið í þeim sést ekki kantur vallarins.

Ástæðan fyrir því að áhorfendur mæta afgangi í húsinu er ekki síst sú að stærð byggingarreitar hússins var svo takmarkandi.

„Í alútboðsgögnunum sem sem unnum eftir og  hönnun byggir á, ásamt deilskipulagsskilmálum,  kemur fram að koma eigi 800 áhorfendum fyrir á svölum 2. hæðar. Það var sumsé ákveðið fyrirfram í alútboðsgögnum.

Byggingarreitur í deiliskipulagi var líka mjög takmarkandi fyrir breidd salarins og þar með sjónlínu gagnvart hliðarlínum knattspyrnuvallarins og sést það best af því að allar tillögurnar sem skilað var í alútboðinu á sínum tíma erum með mjög áþekkar lausnir/sjónlínur fyrir áhorfendur,“ segir í skriflegu svari frá arkitektinum Helga Má Halldórssyni, fyrir hönd hönnuða hússins.

Heimild: Dv.is