Home Fréttir Í fréttum 75 milljónir í umdeilda viðbyggingu Alþingis

75 milljónir í umdeilda viðbyggingu Alþingis

83
0
Teikning frá Guðjóni Samúelssyni
Fjárlaganefnd leggur til í nefndaráliti sínu við fjárlagafrumvarp næsta árs að 75 milljónum verði varið til að hefja undirbúning og hönnun á 4.500 fermetra skrifstofubyggingu fyrir Alþingi í stað leiguhúsnæðis og 750 fermetra bílakjallara. Kostnaðaráætlun við bygginguna nemur 2,3 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að hún rísi á árunum 2017 – 2019.

Í nefndarálitinu kemur fram að við undirbúning framkvæmda skuli hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918 „sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands,“ segir í nefndarálitinu.

<>

Það vakti mikla athygli þegar Fréttablaðið greindi frá því 1. apríl að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefði lagt fram þingsályktunartillögu í ríkisstjórn um hvernig ætti að minnast aldarafmælis fullveldis Íslands eftir þrjú ár.  Í tillögunni var meðal annars mælt fyrir um að byggja við Alþingishúsið eftir hönnun Guðjóns Samúelssonar.

Sigmundur Davíð sagði í fréttum RÚV að taka þyrfti ákvörðun í húsnæðismálum þingsins enda væri stór hluti starfseminnar í dýru leiguhúsnæði við Austurvöll. „Auk þess er þetta náttúrulega mjög fallegt hús og mun gera gríðarlega mikið fyrir umhverfið og fyrir miðborg Reykjavíkur. Þetta er eitt af fallegustu húsum Guðjóns Samúelssonar en því miður höfðu menn ekki efni á að reisa það á sínum tíma,“ sagði Sigmundur Davíð.

En ekki voru allir jafn hrifnir. Aðalheiður Árnadóttir, formaður Arkitektafélags Íslands, sagði í fréttum RÚV hálfum mánuði seinna að það væri dálítið erfitt að „taka hundrað ára gamla teikningu, og, ég veit ekki hvernig á að segja þetta, troða henni svolítið inn þarna á þetta svæði. Ég efast um að það fari vel. En það þarf að skoða þetta í mjög víðu samhengi.“

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði einnig sínar efasemdir um málið. „Það er margt í þessari tillögu sem ekkert hefur verið rætt, eins og tillögur um viðbyggingu við Alþingishúsið í þeirri mynd sem forsætisráðherra kynnti, það voru til tillögur frá tíma Sturlu Böðvarssonar sem forseta Alþingis,“ sagði Ragnheiður Ríkarðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í maí en þingsályktunartillaga forsætisráðherra sat þá föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Heimild: Rúv.is