Home Fréttir Í fréttum Byggingarkostnaður hjúkrunarheimilins Eyrar var 1260 milljónir króna

Byggingarkostnaður hjúkrunarheimilins Eyrar var 1260 milljónir króna

140
0
Mynd Bjarndís Friðriksdóttir.

Skýringar á framúrkeyrslu á byggingarkostnaði við hjúkrunarheimilið Eyri eru margþættar og liggja flestar fyrir, segir Sigurður Pétursson formaður byggingarnefndar. Um síðustu áramót fékk nefndin að sögn Sigurðar lokaúttekt á stærsta framkvæmdaráfanganum, sem var uppsteypa og utanhússfrágangur. Hann reyndist 70 milljónum dýrari en áætlað var. „Skýring á því er að stærstu leyti að byggingarnefnd og yfirmenn bæjarins ákváðu ári áður að setja dýrari múrklæðningu á húsið sem munaði 40 milljónum. Það mun reynast viturleg ákvörðun og skila sér til baka í ódýrara viðhaldi á næstu 20-30 árum,“ segir Sigurður.

<>

Byggingaframkvæmdin fór samtals um 100 milljónum króna framúr áætlunum auk þess sem 99 milljónir eru reiknaðar í fjármagnskostnað á byggingartíma. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 1.060 milljónir en það stefnir í kostnaður við bygginguna verði 1.260 milljónir. Hann segir að aðrir liðir, eins og frágangur innanhúss og smíði innréttinga hafi nokkurn veginn staðist áætlun. „Þó er alltaf einhver umframkostnaður sem má búast við og við erum að tala um 5-10% í auka- og viðbótarverkum.“ Sigurður segir að byggingarnefndin hittist í næstu viku á lokafundi.

Það liggur ljóst fyrir að framkvæmdir við lóð fóru verulega fram úr kostnaðaráætlun. „Það er eitt af því sem við þurfum að taka fyrir á fundinum. Lóðaútboðið er svo miklu minna en önnur útboð, mig minnir að það hafi verið um 60 milljónir en kostnaður endar í 90 milljónum króna. Það er veruleg aukning sem verður að fást haldbær skýring á,“ segir hann. Hann bætir við að strax í upphafi framkvæmdatímans var ljóst að jarðvinna var umfangsmeiri en áætlað var. Vandamál í fráveitukerfinu voru leyst samhliða framkvæmdinni þó þau tengdust Eyri ekki beint, en kostnaður bókfærist á Eyri. Að þessu gefnu virðist sjálf byggingin ætla að fara 100 milljónum fram úr kostnaðaráætlun en við það bætist fjármagnskostnaður á byggingartímanum sem eru aðrar 100 milljónir.
Sigurður segir að bæjaryfirvöld hafi ákveðið að fjármagna bygginguna úr eigin sjóðum og með skammtímalánum. „Þetta er tala sem verður til í bókhaldi bæjarins, að stærstum hluta er hún raunveruleg ef svo má segja, en okkur finnst þetta háir vextir. Aukinn yfirdráttur eða stór skammtímalán eru dýr en það var ákvörðun bæjaryfirvalda árið 2011 að fara þessa leið. Ekki var gengið frá langtímafjármögnun fyrr en í sumar.“ Það hefur verið gagnrýnt að fjármagnskostnaður á byggingartíma hafi ekki verið inni í kostnaðaráætlun. Sigurður segir það réttmæta gagnrýni, en þar hafi auðvitað áhrif sú leið sem þáverandi bæjaryfirvöld fóru við fjármögnun á byggingartíma.

„Við megum ekki gleyma því, að þrátt fyrir þennan mikla kostnað þá voru það verktakar í heimabyggð sem fengu alla stærstu verkþættina í útboði og allir helstu undirverktakar voru einnig úr héraði, þannig að bærinn hefur fengið miklar skatttekjur vegna þessarar framkvæmdar. Það er allt útlit fyrir að leigan sem ríkið borgar standi undir afborgunum af stóra láninu, viðhaldi og að bærinn fái hluta af fjármögnunarkostnaði á byggingartímanum til baka. Eftir stendur þetta fína hjúkrunarheimili sem er orðið fullbúið af tækjum og tólum og bíður þess að íbúar geti flutt inn,“ segir Sigurður Pétursson.

Heimild: Skutull.is