Home Fréttir Í fréttum Veltu 93 milljörðum á fimm árum

Veltu 93 milljörðum á fimm árum

379
0
Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO. Mynd: Eyþór Árnason

BYKO velti alls 93 milljörðum króna á tímabilinu 2016 til 2020. Samanlagður hagnaður tímabilsins nam 4,7 milljörðum króna.

<>

Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar, sem kom út nýverið. Þar fer Sigurður um víðan völl og kemur m.a. inn á rekstur félagsins sem hefur gengið með miklum ágætum undanfarin ár.

Til marks um það nemur samanlagður hagnaður tímabilsins 2016- 2020 4,7 milljörðum króna. Þá nam á fimm ára tímabilinu samanlögð velta 93 milljörðum króna og framlegð 32 milljörðum króna.

Hagnaður hvers árs á tímabilinu hefur verið á bilinu 744- 1.345 milljónir króna. Mestur var hagnaðurinn árið 2017 en minnstur 2016. Þá hefur velta félagsins farið stigvaxandi á tímabilinu.

Árið 2016 nam veltan hátt í 16 milljörðum króna, 2017 var hún 17,5 milljarðar króna, 2018 rétt rúmlega 19 milljarðar, 2019 nærri 20 milljarðar og loks 2020 var veltan komin upp í tæplega 21 milljarð króna.

Framlegð hefur að sama skapi aukist milli ára. Árið 2016 nam framlegð 5,2 milljörðum króna en árið 2020 var framlegð orðin 7,2 milljarðar króna. Í lok árs 2020 námu eignir fyrirtækisins 6,6 milljörðum króna og eigið fé 2,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var því 35%. Ársreikningur síðasta árs hefur ekki verið birtur opinberlega en Sigurður segir rekstrarniðurstöðu síðasta árs hafa verið mjög góða.

„Við erum að koma undan mjög góðu ári og árið áður var einnig mjög gott ár. 2017 var svo sögulega gott ár. Árið 2020, sem verður alltaf minnst sem Covid-árið, var mjög merkilegt ár að mörgu leyti.

Sögulega séð hefur hagkerfið virkað þannig að þegar óvissa steðjar að þá heldur fólk að sér höndum og einkaneysla dregst saman. Það þarf ekki meira en óvissu tengda kjarasamningum og þá finnum við fyrir áhrifum þess á söluna.

” Árið 2020 hafi hins vegar verið ár einstaklingsins. „Þegar búið er að taka flesta afþreyingarkosti af fólki þá er fátt annað eftir en að fegra heimilið. Það gerðist svo sannarlega, enda hafði fólk ekki lengur afsökun fyrir því að fresta framkvæmdum.”

Sigurður segir að árið 2021 hafi verktakar aftur á móti náð vopnum sínum og það verið ár verktakans. Hann þakkar aðgerðum ríkisstjórnarinnar fyrir það, en meðal aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til í faraldrinum hefur verið að setja aukið púður í opinberar framkvæmdir.

„Ríkisstjórnin brást mjög vel við faraldrinum með aðgerðum sem voru að raungerast á síðasta ári og yfirstandandi ári. Þessar aðgerðir sneru að því að setja aukið púður í opinberar framkvæmdir, samgöngumál o.s.frv. Árið 2021 var því meira ár verktaka og annarra fagaðila, þó að einstaklingar hafi áfram verið duglegir að ráðast í framkvæmdir.”

Heimild: Vb.is