Home Fréttir Í fréttum Hörð andstaða við framkvæmdir við Þríhnúkagíg

Hörð andstaða við framkvæmdir við Þríhnúkagíg

83
0

Orkuveita Reykjavíkur telur fjarri því að sýnt hafi verið fram á að engin hætta sé á mengun grunnvatns vegna framkvæmda eða reksturs við Þríhnúkagíg. Fyrirtækið er mótfallið framkvæmdunum vegna vatnsverndarhagsmuna. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur telur skort á rannsóknum sýna fram á mögulegan forsendubrest og dregur í efa að fyrirhugaðar framkvæmdir við gíginn séu skynsamlegar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögnum sem teknar voru fyrir hjá skipulagsnefnd Kópavogsbæjar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við náttúruperluna Þríhnúkgagíg. Hann hefur notið mikilla vinsælda hjá erlendum ferðamönnum og fjölmiðlar um allan heim hafa sýnt honum mikinn áhuga.

<>

Mengunarslys fyrir tveimur árum
Þeir sem hafa rekið þar ferðaþjónustu vilja bæta aðgengi að gígnum. Vilja reisa þar þjónustumiðstöð, grafa 330 metra löng frá miðstöðinni að gígnum þar sem verða útsýnissvalir og þar eiga gestir að geta virt gíginn fyrir sér.

Framkvæmdir á þessu svæði hafa verið nokkuð umdeildar – ekki síst eftir mengunarslys sem þar varð þegar verið var að flytja tank með 600 lítra af dísilolíu með þyrlu á vegum Þríhnúka ehf.

Tillaga að deiliskipulagslýsingu fyrir svæðið var auglýst í lok október en óhætt er að segja að hún hafi mætt mikilli andstöðu, meðal annars hjá hjá Orkuveitu Reykjavíkur, skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, Hafnarfjarðarbæ og Hellarannsóknarfélaginu. Umhverfisstofnun telur að opnun á gígnum sé óafturkræf aðgerð á einstökum náttúruminjum – verndargildi Þríhnúkagígs sé mikið á lands- og heimsvísu.

Orkuveitan andsnúinn
Orkuveita Reykjavíkur segir í umsögn sinni að forsvarsmenn Þríhnúkagígs verði að sýna fram á að engin hætta sé á mengun grunnvatns vegna framkvæmda eða reksturs. „Orkuveitu Reykjavíkur er ekki kunnugt um að rannsóknir á borð því þær hafi farið fram,“ segir í umsögn fyrirtækisins sem krefst þess að Kópavogsbær, sem handhafi skipulagsvalds á svæðinu, gangist fyrir slíkum rannsóknum.

Orkuveitan telur fjarri því að sýnt hafi verið fram á að engin hætta sé á mengun grunnvatns og því séu ekki fyrir hendi nauðsynlegar forsendur til að halda áfram undirbúningi deiliskipulagsins. „Fyrirtækið hefur ítrekað lýst sig mótfallið framkvæmdunum vegna vatnsverndarhagsmuna,“ segir í umsögn OR. Fyrirtækið bendir á að Þríhnúkagígur sé á aðrennslissvæði vatnstökusvæða fyrirtækisins, Kópavogsbæjar og Hafnarfjarðar „og því hætta á að mengun frá umferð og starfsemi á svæðinu berist í neysluvatn íbúa höfuðborgarsvæðisins.“ Undir þetta tekur Hafnarfjarðarbær í umsögn sinni.

Efast um að framkvæmdirnar séu skynsamlegar
Og í sama streng er tekið í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem leggst gegn uppbyggingu og framkvæmdum á svæðinu þar til niðurstöður rannsókna liggja fyrir. Mikið álag sé nú þegar til staðar og mengunarhætta sé á framkvæmdarstigi og eins við aukinn flutning á fólki inn á Bláfjallafólkvang.

Umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar er í sama dúr. Að ekki séu til rannsóknir sem sýni fram á að engin hætta sé á mengun grunnvatns sé mögulega forsendubrestur fyrir því að undirbúningi deiliskipulags Þríhnúkagígs sé haldið áfram

Hann dregur í efa að fyrirhugaðar framkvæmdir séu skynsamlegar – þær muni rýra mikið verndargildi Þríhnúkagígs og nálægra jarðminja. „Mun það einnig hafa áhrif á upplifunargildi þeirra sem heimsækja Bláfjallafólkvang sem er jú að miklu leyti göngufólk og fólk á gönguskíðum.“

Skipulagsfulltrúinn veltir því fyrir sér hvort þörf sé á svo miklum innviðum. „Hingað til hefur ferðaþjónusta í Þríhnúkagíg einkum miðast við stýrðar heimsóknir lítilla hópa þar sem gengið er að gígnum og hann síðan skoðaður af fáum á einstakan hátt. Ljóst er að eðli heimsóknarinnar er stór hluti af ferðaupplifuninni.“

„Óafturkræf spjöll á merku náttúrufyrirbæri“
Harðasta gagnrýnin kemur þó frá Sigurði Sveini Jónssyni, jarðfræðingi og gjaldkera Hellarannsóknarfélags Íslands. Hann segir bersýnilegt að einkaaðilar séu að gylla um fyrir hlutaðeigandi stjórnvöldum til að skapa gróðvænlegt fyrirtæki innan þjóðlendu. „Nærtækt er að benda á nýlegar fréttir í fjölmiðlum um sölu og brask með hlutabréf í verkefninu og aðkomu fjársterkra sjóða og annarra sem sjá fyrir sér arðvænlegan rekstur.“

Bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum í dag að hafna tilboði Landsbréfa í hlut bæjarins í Þríhnúkagíg. Bærinn ætlar í staðinn að auglýsa þau til sölu. Reykjavíkurborg hefur samþykkt að selja sinn hlut en Landsbréf buðu 119 milljónir króna í allt hlutafé Þríhnúka.

Sigurður segir ekki hægt að fallast á þessar framkvæmdir á grundvelli náttúruhagsmuna, mengunarhættu og takmörkunar á almannarétti. Að hans mati eru þær algjörlega ónauðsynlegar „en mættu að ósekju fara fram með viðlíka hætti og núverandi rekstraraðili hefur stundað að undanförnu.“

Heimild: Rúv.is