Home Fréttir Í fréttum Leigjendur fá tvo milljarða í viðbót

Leigjendur fá tvo milljarða í viðbót

59
0
Stuðningur við leigjendur hækkar um tvo milljarða á ári, verði frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum. Hún óttast ekki að hærri bætur leiði til hærra leiguverðs.

Eygló hefur haft fjögur frumvörp um húsnæðismál í vinnslu um nokkurt skeið. Frumvörpin eru um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, breytingu á húsaleigulögum, húsnæðisbætur og stofnstyrki. Frumvörpin hafa hins vegar tafist nokkuð. Á ríkisstjórnarfundi í gær tóks Eygló hins vegar að koma þriðja frumvarpinu af fjórum í gegnum ríkisstjórn, en það lýtur að húsnæðisbótum. Áður hafði ríkisstjórnin afgreitt frumvörp hennar um húsnæðissamvinnufélög og húsaleigulög.

<>

Með frumvarpinu sem afgreitt var í gær verður horfið frá húsaleigubótakerfinu og tekið upp nýtt kerfi húsnæðisbóta.

„Þetta er breyting á húsnæðisstuðningi við leigjendur. Við höfum verið með húsaleigubætur en samkvæmt þessu frumvarpi erum við að gera ráð fyrir því að húsaleigubæturnar færist frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins og að stuðningur verði aukinn verulega. Ekki hvað síst gagnvart þeim sem búa einir og þeim sem eru með lægstu tekjurnar. Og líka til þess að koma til móts við kröfur aðila vinnumarkaðarins þá erum við að horfa til fólks sem er með lægstu tekjurnar á vinnumarkaðnum,“ segir Eygló.

Verði frumvarpið að lögum aukast útgjöld ríkissjóðs vegna húsnæðisstuðnings til leigjenda um liðlega tvo milljarða á ári og fer úr 4,6 milljörðum í 6,6, milljarða árið 2017. Það er um 44% hækkun.

Hækki ekki leiguverð

Í krónum talið, hvað mun þetta þýða fyrir leigjendur?

„Ef við tökum dæmi um námsmann þýðir það að námsmaður sem er að fá rúmlega 165 þúsund krónur í námslán er að vinna að hámarki 930 þúsund krónur á ári. Hann mun fá um 9.000 krónur beint í vasann fyrir utan skatta til viðbótar við það sem hann er að fá núna.“

Verður tekjutengingu eitthvað breytt?

„Já, af því að þetta er hluti af okkar framlagi gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og líka til þess að jafna stuðning hins opinbera á milli þeirra sem eiga og þeirra sem leigja. Tekjuskerðingarviðmiðum verður breytt og frítekjumörkin verða hækkuð.“

Þannig að fleiri munu fá bætur?

„Þar af leiðandi munu fleiri fá bætur, já.“

Þetta frumvarp hefur verið gagnrýnt þar sem menn búast við að þetta valdi því að leiguverð hækki, hverju svarar þú því?

„Við höfum látið skoða það sérstaklega. Það sem er svo mikilvægt er að horfa á heildarmyndina. Þannig að við fengum ráðgjafarfyrirtæki til þess að fara yfir efnahagsáhrifin af annars vegar nýja félagslega leiguíbúðakerfinu, stofnframlögunum, breytingu á skattlagningu á leigutekjur, og síðan áhrifin af húsnæðisbótunum. Niðurstaðan af þeirri greiningu sem mun vonandi birtast á næstunni segir að við gerum ráð fyrir að leiga muni lækka. Húsnæðisbæturnar eru hins vegar til að efla eftirspurnarhliðina sem gerir það að verkum að það er hækkun þar. En þegar það spilar saman við aðrar aðgerðir sem við erum með, stofnframlögin sem ég nefndi, félagslega leiguíbúðakerfið, fjölgun á íbúðum, og breyting á skattlagningu, þá á það að leiða til lækkunar á leiguverði.“

En hvernig er hægt að koma í veg fyrir að leigjendur hækki leiguna þegar þeir vita að leigjendur hafa meira fé á milli handanna?

„Þetta er mjög góð spurning. Við erum að horfa til þess að með því að auka framboð á íbúðum samhliða, sem var megináherslan hjá þeim hópum sem voru að starfa með okkur og skila mér tillögum, er að við verðum annars vegar að styrkja eftirspurnarhliðina sem við erum að gera með opinberum stuðningi við leigjendur. Það er líka ákveðið réttlætismál sem snýr að því að jafna á milli þeirra sem eiga og leigja, en við verðum líka að auka framboðið. Þannig að stóra frumvarpið sem við erum að tala um, þótt þetta sé vissulega stórt sem snýr að breytingum varðandi húsnæðisstuðninginn, þá er það nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi og yfirlýsing stjórnvalda um að á næstu fjórum árum verða byggðar 2.300 íbúðir með stuðningi hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga.“

Þannig að í sinni einföldustu mynd; aukið framborð, lækkað verð.

„Aukið framboð á að leiða til þess að verðið lækkar. Síðan má horfa til þess að við erum líka með ákveðnar tillögur sem snúa að því að hjálpa fólki að eignast húsnæði. Til dæmis breytingar á byggingareglugerð og að lækka almennt húsnæðiskostnaðinn. Þetta á allt að hjálpa til við að bæta húsnæðismarkaðinn.“

Mikið samráð

Hvenær áttu von á að þessi fjögur frumvörp verði að lögum?

„Vonandi sem fyrst. En við vitum að það getur tekið tíma að vinna svona stór mál og ég veit að þingið þarf að taka sinn tíma í þetta. En vonandi getum við unnið þetta hratt og vel. Þingið hefur sýnt að það getur það, jafnvel í stórum málum, ef það er ætlunin eins og núna í tengslum við kjarasamninga að afgreiða ákveðin mál fyrir febrúar.“

Hefur þetta tekið lengri tíma en þú áttir von á?

„Þetta er búið að vera mjög mikið ferli, já. Samráðið hefur verið mjög mikið. Við höfum unnið þetta í mjög nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin. Þannig að það má eiginlega segja að þau eigi kannski meira í þessum frumvörpum en endilega ég.“

Hafa þessar tafir eitthvað með andstöðu Sjálfstæðisflokksins að gera?

„Ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess í vor að gera ákveðna hluti í tengslum við kjarasamninga. Þar lofuðum við töluvert miklu en að þetta væru atriði sem við ætluðum að standa við og við höfum gert allt sem við getum til þess að gera það. Þessi frumvörp eru hluti af því og núna eru þrjú komin í gegnum ríkisstjórn. Eitt til viðbótar sem er á leiðinni. Það eru tillögur í fjárlagafrumvarpinu sem snúa að því að fjármagna þetta sem við náttúrulega afgreiðum fyrir jól. Auk þess sem frumvörp sem tengjast þessari yfirlýsingu koma frá fleiri ráðherrum.“

Er fullkomin sátt um þessi frumvörp í ríkisstjórn?

„Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin skuldbatt sig til að gera núna í vor. Það liggur fyrir yfirlýsing og samþykkt ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin eru búin að afgreiða þessi þrjú frumvörp sem við erum að nefna hér frá sér. Og á næstunni munum við sjá frumvarp um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi,“ segir Eygló Harðardóttir

Heimild: Rúv.is