Home Fréttir Í fréttum Öllum tilboðum hafnað í fyrstu einkafjármögnuðu vegagerðina

Öllum tilboðum hafnað í fyrstu einkafjármögnuðu vegagerðina

328
0
Nýja brúin yfir Hornafjarðarfljót verður 250 metra löng. Þrjár aðrar brýr eru hluti útboðsins. VEGAGERÐIN

Vegagerðin hefur hafnað öllum tilboðum sem bárust í endurnýjun hringvegarins um Hornafjörð og ákveðið að bjóða verkið út að nýju með breyttu sniði.

<>

Þetta var fyrsta útboðið á grundvelli nýlegra laga um einkafjármögnun í vegagerð.

Greint var frá málinu í fréttum Stöðvar 2 en útboðið var í nýjan nítjan kílómetra langan veg þvert yfir Hornafjörð ásamt smíði fjögurra brúa.

Vegamálastjóri hefur sagt útboðið marka tímamót sem það fyrsta á grundvelli laga um samvinnuverkefni þar sem verktaka er bæði ætlað að vinna verkið og fjármagna það að hluta.

Tilboðin eru í framkvæmd og fjármögnun verksins. Núna er Vegagerðin búin að hafna þeim báðum.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Þegar tilboðin tvö sem bárust voru opnuð um miðjan febrúar, frá Ístaki upp á 8,5 milljarða króna og ÞG-verki upp á 9,8 milljarða króna, reyndust þau svo hátt yfir sjö milljarða króna kostnaðaráætlun að Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri gat ekki leynt vonbrigðum sínum.

„Ég skal alveg viðurkenna að við höfðum vonast eftir lægri tölum. En svo á maður eftir að sjá betur hvernig þetta er samansett,“ sagði Bergþóra í viðtali við Stöð 2 þann 17. febrúar síðastliðinn.

Og núna er Vegagerðin búin að hafna tilboðunum, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Jafnframt hefur verið ákveðið að bjóða verkið út aftur og verður nýtt útboð kynnt á Evrópska efnahagssvæðinu í næstu viku.

Tölvuteikning af nýrri leið yfir Hornafjörð. Verkinu fylgja alls fjórar nýjar brýr og nítján kílómetrar af nýjum vegum.
VEGAGERÐIN

Sama verkið verður þó boðið út, sem felur í sér styttingu hringvegarins um tólf kílómetra, en útboðinu breytt þannig að núna verða framkvæmdin og fjármögnun á verktíma boðin út, en langtímafjármögnunin síðan sérstaklega boðin út.

G. Pétur segir að með því að breyta um nálgun eigi að freista þess að fá betri tilboð.

Heimild: Visir.is