Home Fréttir Í fréttum Kvöð frá 1975 varð banabiti hóteláforma

Kvöð frá 1975 varð banabiti hóteláforma

166
0
Mynd: 365° vefur - Ja.is
Kvöð sem lögð var á nýtingu lóðar við Hallarmúla í Reykjavík árið 1975 varð til þess að ekkert varð úr áformum nýrra eigenda lóðarinnar fyrir fáeinum árum um að reisa þar hótel. Það varð til þess að fyrirtæki nýrra eigenda var tekið til gjaldþrotaskipta og bæði seljandi og banki sem veitti lán til kaupanna urðu af hundruðum milljóna króna.

Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Þar segir frá kaupum félagsins HM2 hótela á lóð og húsnæði við Hallarmúla 2. Félagið, í eigu Fannars Ólafssonar og Andra Gunnarssonar, fékk 700 milljóna króna lán hjá Landsbankanum og 300 milljóna króna seljandalán hjá HM2 sem seldi því eignina. Markmiðið var að reisa hótel á lóðinni, rétt fyrir aftan Hilton Nordica hótelið.

<>

Þessi áform fóru fyrir brjóstið á stjórnendum Hilton Nordica hótelsins sem rifjuðu upp að sett hefði verið kvöð á lóðina árið 1975 um að þar ætti einungis að fara fram starfsemi sem sneri að sölu bíla og bílavarahluta, starfsemi sem bryti ekki í bága við rekstur hótelsins eða eiganda þess.

Þessari kvöð var aflétt 1993 en stjórnendur hótelsins vildu meina að það hefði verið gert fyrir mistök og dæmdi Hæstiréttur þeim í vil. Þar með varð ljóst að ekki yrði reist hótel við hlið þess hótels sem fyrir var og áform nýju eigendanna þar með farin út um þúfur.

Á endanum var lóðin við Hallarmúla 2 seld á 540 milljónir króna sumarið 2021, að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu, 460 milljónum króna minna en hún var keypt á vorið 2018, að ótöldum vöxtum sem höfðu safnast upp. Félagið var svo tekið til gjaldþrotaskipta í desember og fékkst ekkert upp í 335 milljóna króna kröfur.

Heimild: Ruv.is