Home Fréttir Í fréttum Óvissa á byggingamarkaði

Óvissa á byggingamarkaði

380
0
Um 90% alls steypustyrktarjárns sem flutt er inn á Íslandsmarkað kemur frá Hvíta Rússlandi. Samsett mynd: Eyþór

Innrásin í Úkraínu gæti haft víðtæk áhrif á fasteignamarkaðinn hérlendis.

<>

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, segir 90% alls steypustyrktarjárns sem flutt sé inn fyrir Íslandsmarkað koma frá Hvíta Rússlandi.

Mikil óvissa og verðhækkanir einkenni ástandið á þessum markaði en verð á stáli hefur hækkað um 68% frá því stríðið hófst, en ekki sjái fyrir endann á þeim hækkunum.

„Það ríkir mikil óvissa á þessum markaði. Þær pantanir sem voru gerðar 1 .mars af fyrirtækjum eiga að vera afgreiddar en við vitum ekkert um stöðuna á því. Við erum bara að leita annarra leiða en það er vandasamt – þetta eru mjög miklar verðhækkanir,” segir Sigurður Brynjar.

Hann nefnir að allt að 40% þess timburs sem Byko flytji inn komi frá Rússlandi. Það sé því auðséð að framboð á timbri muni dragast saman núna og verð hækka í ljósi þess að það er ekki hægt að færa rússneska skóga.

„Þá eru timburbolir sem fluttir eru frá Rússlandi í timburmyllur fluttir á vögnum sem eru ekki til ráðstöfunar þar sem þeir eru allir nýttir í herflutninga sem stendur,” segir Sigurður Brynjar.

Að sögn Sigurðar Brynjars hefur þessi mikla óvissa á þessum mörkuðum áhrif á allt samfélagið þar sem mikið sé byggt hér á landi í dag og til standi að byggja mikið á næstunni.

„Hér á landi er mest megnis byggt úr steypu og í henni er stál. Þú getur ekki byggt hús nema að hafa stál og timbur í því. Það er til dæmis timbur í mótum, gólfefnum og þaki.

Það er ekkert hús í heiminum sem er ekki með annað hvort timbur eða stál,” segir Sigurður Brynjar og nefnir sem dæmi að í Landspítalann fari um 18 þúsund tonn af stáli en mikið stál sé í öllum byggingum á Íslandi.

Olíuverð einnig áhrifaþáttur
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að verðhækkanir á þessum aðföngum og hökt í afhendingu muni ekki hafa góð áhrif á byggingageirann sem sé í talsvert miklum vexti núna.

„Við sjáum verulega aukningu í umfangi greinarinnar samferða uppsveiflunni í hagkerfinu. Á endanum bitnar þetta hugsanlega á byggingakostnaði og byggingarhraða en það er óljóst hversu mikil áhrifin verða,” segir Ingólfur.

Hann nefnir að fasteignaverðshækkanir undanfarið hafi verið knúnar áfram af framboðsskorti. Ef það dragi úr byggingarhraðanum aukist framboðsskorturinn.

„Hækkun á verði aðfanga hækkar byggingakostnað. Hærri byggingarkostnaður leiðir til þess að endurskoða þarf verkefni og endurmeta með tilheyrandi töfum.”

Miklar sveiflur í verði olíu hafi líka áhrif en Brent norðursjávarolían var í gær komin niður í það verð sem hún var í fyrir innrásina í Úkraínu en hækkaði aftur talsvert í dag.

„Enn sem komið er hefur ekki verið hægt að ráðast í orkuskipti á margvíslegum búnaði sem notast er við í byggingariðnaði og verkstaðir eru sumir hverjir ekki með aðgengi að rafmagni. Hækkun á olíu hefur því áhrif þar,” segir Ingólfur.

Heimild: Vb.is