Home Fréttir Í fréttum Íbúðaskortur framundan

Íbúðaskortur framundan

122
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson

Húsnæðis og mannvirkjastofnun segir að hraða þurfi skipulagsferlum og einfalda regluverk til að uppfylla aukna íbúðaþörf á komandi árum.

<>

Vísbendingar eru um verulega aukna íbúðaþörf á komandi árum og þörf er á breytingum í skipulagsmálum til að uppfylla þörfina.

Þetta kemur fram í kynningu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, fyrir fjárlaganefnd, um stöðuna á húsnæðismarkaði.

Metfjöldi kaupsamninga var á árinu 2021 í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans sem juku kaupgetu fólks verulega. Nú er það svo að framboð íbúða til sölu er í sögulegu lágmarki. Sveitarfélög áætla að byggja þurfi 3.500 íbúðir á ári næstu fimm árin, en íbúðaþörfin byggir á mannfjöldaspá sveitarfélaga og forsendum um fjölda íbúa per íbúð.

Samkvæmt spá HMS um fjölda nýrra íbúða 2022 og 2023 munu fullkláraðar íbúðir á næstu árum ekki mæta áætlaðri íbúðaþörf.

Talið er að um 3.000 íbúðir verði fullkláraðar á árinu 2022 og aðeins um 2.800 íbúðir á næsta ári, 2023. Til samanburðar voru um 3.200 íbúðir fullkláraðar á árinu 2021 og 3.800 íbúðir á árinu 2020.

Í kynningu HMS segir að þörf sé á grundvallarbreytingu í meðferð skipulagsmála ef það á að takast að byggja á bilinu 3.500-4.000 íbúðir á ári næstu árin.

Mikill skortur er á byggingarhæfum lóðum þrátt fyrir nægt framboð lóða og að óbreyttu er ólíklegt að byggðar verði nægilega margar íbúðir á næstu árum vegna skipulagsferla.

Legjga til að hraða skipulagsferlum

HMS leggur fram fjórar tillögur að næstu skrefum.

Í fyrsta lagi telur HMS mikilvægt að tryggja stöðuga uppbyggingu íbúða til að koma í veg fyrir óhóflega hækkun fasteignaverðs sem skerði lífskjör almennings.

Þannig þurfi jafnframt að stórauka áherslu á áætlanagerð og eftirfylgni með hagnýtingu nýrra stjórntækja stjórnvalda.

Auk þess þurfi að hraða skipulagsferlum, einfalda regluverk í samvinnu við sveitarfélög og stuðla samræmdari afgreiðslu skipulags og byggingarleyfa.

Að lokum leggur HMS til að skoðaðar séu leiðir til þess að nýta húsnæðisstuðning hins opinbera til þess að auka framboð íbúða enn frekar og tryggja á sama tíma aðgengi tekjulágra að húsnæðismarkaði hvort sem er til eignar eða leigu.

Heimild: Vb.is