Spennandi tímar eru framundan hjá Röntgen Domus en fyrirtækið hefur nýlega tekið á móti glænýjum tækjum sem verða tekin í notkun vonandi í þessum mánuði. Starfsmenn og verktakar hafa staðið í ströngu undanfarnar vikur að undirbúa komu þeirra enda ekki hlaupið að því að koma þessum stóru og flóknu græjum í notkun.
Þetta segir Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Röntgen Domus – Læknisfræðilegrar myndgreiningar.
Tækin sem um ræðir eru alls fjögur talsins, segulómunartæki, röntgentæki og tvö ómunartæki. Andvirði þeirra hleypur samtals á nokkur hundruð milljónum svo ekki sé minnst á kostnaðinn sem felst í breytingum á húsnæðinu sem nauðsynlegt var að ráðast í.
Að sögn Sólveigar munu nýju tækin bjóða upp á betri þjónustu við viðskiptavini og lækna sem senda skjólstæðinga sína til þeirra. Með tilkomu þeirra verða myndir í betri upplausn og fleiri greiningarmöguleikar munu standa til boðar, svo eitthvað sé nefnt.
Segulómunartækið stærsta fjárfestingin
Af þessum nýju gripum er segulómunartækið hvað verðmætast en sú fjárfesting ein og sér nam ríflega hundrað milljónum króna.
„Þetta er auðvitað mikil fjárfesting. Þetta er stórt og mikið tæki. Það sem breytist kannski fyrir sjúklinga er að aðgengið að tækinu, að komast í það, er miklu betra. Fólk þarf að vera skemur í tækinu þannig að það tekur skemmri tíma. Eins opnast nýir möguleikar á nýjum rannsóknum, sem hefur ekki verið hægt að gera,“ segir Sólveig.
Ekki eins og að kveikja á nýjum Iphone síma
Hún segir mögulegt að tækin verði tilbúin til notkunar í þessum mánuði en ríflega ár er liðið frá því að ákvörðunin um að fjárfesta í þeim var tekin. Síðan þá hefur mikil vinna farið í að undirbúa komu þeirra og fjármagna.
„Hér er heill her af iðnaðarmönnum að undirbúa þetta allt saman.“
Þetta er þá ekki eins og að kveikja bara á nýjum Iphone síma?
„Nei, þetta er ekki bara að kveikja. Það er búið að vera meiriháttar aðgerð í mánuð hérna. Það eru allskonar iðnaðarmenn sem koma að þessu, rafvirkjar, píparar, tæknimenn og smiðir. Það er búinn að fara mánuður í að breyta leiðslum rafmagni og öðru.
Hvað veldur því að þið eruð að ráðast í þessa endurnýjun núna?
„Fyrirtækið vill bara veita frekari þjónustu. Auðvitað þarf alltaf að endurnýja tæki. Það var bara ákveðið að fara í það núna.“
Starfa enn í Domus Medica húsinu
Læknisfræðileg myndgreining er elsta myndgreiningarfyrirtækið á Íslandi en það var stofnað árið 1993. Domus er eitt af þeim fáu fyrirtækjum sem halda áfram starfsemi í Domus Medica húsinu en fyrir utan fjölbreyttar tegundir myndgreininga felur starfsemi þess m.a. í sér deyfingar, sýnatökur og ástungur. Auk þess fer þar einnig fram kennsla.
„Við tökum á móti geislafræðingum og læknisfræðinemum. Við erum með viðurkenningu frá Háskóla Íslands um að þetta sé kennslueining. Þannig það er alveg líf og fjör í þessu fyrirtæki. Sérstaklega hérna á Egilsgötunni þar sem miðstöðin er.“
Aðspurð segir Sólveig reksturinn blessunarlega ekki hafa orðið fyrir miklum áhrifum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og hefur því ekki tekið miklum breytingum síðustu tvö árin.
„Dagurinn er svo sem svipaður og hann hefur verið áður. Það má kannski segja að faraldurinn núna – að þessi miklu forföll vegna Ómíkron hafi haft einhver áhrif en annars hefur þetta bara gengið ótrúlega vel. Starfsfólkið hefur bara staðið sig mjög vel.“
Hún segir nú spennandi tíma framundan með tilkomu nýju tækjanna.