Bankaráð Landsbankans mun koma saman í þessum mánuði og fjalla um ósk Stjórnarráðsins um að hefja formlegar viðræður um kaup á Norðurhúsi nýbyggingar bankans í Austurhöfn. Þetta segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi bankans. Halda má því fram að hér sér ríkissjóður að hefja samningaviðræður við sjálfan sig, því hann á 98,2% í Landsbankanum.
Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu 24. febrúar sl. stefnir ríkið að því að hefja formlegar samningaviðræður við Landsbankann um kaup á Norðurhúsinu við Austurbakka, sem er í byggingu. Kannað verði til hlítar hvort hægt sé að ná fram hagkvæmri niðurstöðu um kaup ríkisins á eigninni. Um sé að ræða nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem hægt sé að sérsníða að þörfum Stjórnarráðsins innan tiltölulega skamms tíma. Því sé um álitlegan kost að ræða.
Um að ræða tvö hús af fjórum
„Nýbygging Landsbankans er í raun fjögur sambyggð hús. Við höfum frá upphafi stefnt á að selja eða leigja frá okkur um 40% af húsinu eða um 6.500 fermetra. Stærsti hluti þess húsnæðis sem við ætlum að selja eða leigja frá okkur er í tveimur húsum sem ganga undir heitinu Norðurhús og er rúmlega 6.000 fermetrar.
Einnig hyggst bankinn leigja eða selja húsnæði sem tilheyrir öðrum hlutum byggingarinnar,“ segir Rúnar Pálmason. Norðurhús samanstendur af tveimur byggingarhlutum, annars vegar fjögurra hæða byggingu og hins vegar byggingu á einni hæð með þakgarði. Norðurhús mun fá húsnúmerið Reykjastræti 6. Bankinn verður í Reykjastræti 8.
Rúnar segir að bankinn hafi að undanförnu kynnt húsnæðið fyrir ýmsum mögulegum kaupendum og leigjendum, þ.m.t. fyrir Stjórnarráðinu, og margir sýnt því áhuga.
Stefnt er að því að nýbygging Landsbankans, sem er alls 16.500 fermetrar, verði tilbúin til notkunar í lok árs 2022.
Í tilkynningu á heimasíðu Stjórnarráðsins í síðustu viku kemur fram að forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi undanfarna mánuði unnið að greiningu á framtíðarskipan húsnæðismála Stjórnarráðsins. Nú liggi fyrir tillögur um skipulag húsnæðismála til lengri og skemmri tíma.
Til lengri tíma er gert ráð fyrir að starfsemi Stjórnarráðsins verði í stærri og sveigjanlegum einingum á og við Stjórnarráðsreit. Um er að ræða Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu auk viðbyggingar, Skúlagötu 4, Sölvhólsgötu 4, Sölvhólsgötu 7-9, Arnarhvol við Lindargötu og Norðurhús á Austurbakka. Auk þess sem gamla Hæstaréttarhúsið við Lindargötu verður nýtt undir sameiginlega aðstöðu.
Hér er um að ræða stefnubreytingu hjá Stjórnarráðinu, því áður var stefnt að nýbyggingum, alls tæplega 10 þúsund fermetrar að stærð, á svonefndum Stjórnarráðsreit. Hann markast af Skúlagötu, Klapparstíg, Lindargötu og Ingólfsstræti.
Alþingi samþykkti í október 2016 ályktun í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 um að fela ríkisstjórn að efna til samkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti úrslit og afhenti verðlaun fyrir bestu tillögurnar við athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 3. desember 2018.
Átta tillögur bárust í samkeppninni. 1. verðlaun hlaut tillaga T.ark arkitekta ehf. og SP(R)INT Studio.
Lesa má nánar um málið í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.