Home Fréttir Í fréttum Nær aldrei bæst við fleiri í­búðir en í fyrra

Nær aldrei bæst við fleiri í­búðir en í fyrra

161
0
Framboð íbúða hefur snarlækkað undanfarin misseri. VÍSIR/VILHELM

Mikill fjöldi íbúða bættist við húsnæðisstofn höfuðborgarsvæðisins í fyrra og fjölgar íbúðum í byggingu, að sögn Hagfræðideildar Landsbankans. Þó er óvist hvort framboðsaukningin sé næg miðað við núverandi aðstæður þar sem eftirspurn er mikil.

<>

Í fyrra bættust 2.192 nýjar íbúðir við húsnæðisstofn höfuðborgarsvæðisins. Um er að ræða fækkun upp á 355 íbúðir milli ára en á árinu 2020 bættust 2.547 nýjar íbúðir við húsnæðisstofninn. Var það mesti fjöldi sem sést hefur á einu ári frá upphafi gagnasöfnunar hjá Þjóðskrá.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en aðeins tvisvar hafa fleiri íbúðir bæst við stofninn en í fyrra, eða árin 2007 og 2020. Að jafnaði hafa um 1.300 nýjar íbúðir bæst við markaðinn á hverju ári.

Framboð þurfi að vera tryggt

Um síðustu áramót voru alls 3.181 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, 2.659 í fjölbýli og 522 í sérbýli. Að sögn hagfræðideildarinnar er um að ræða aukningu upp á 567 íbúðir milli ára, eða 22%. Því megi reikna með að áfram komi talsvert af nýjum íbúðum inn á markaðinn í ár.

„Þrátt fyrir það er spenna mikil á fasteignamarkaði og framboð virðist treglega geta mætt aukinni eftirspurn vegna lægri vaxta og breyttra aðstæðna í samfélaginu vegna faraldursins. Það er viðbúið að sú eftirspurn dragist saman eftir því sem vextir hækka, en þrátt fyrir það þarf framboðið að vera tryggt, ekki síst vegna örari fólksflutninga til landsins,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Að sögn Hagfræðideildar bankans má gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt sé að uppbygging sé stöðug og jöfn þar sem mikill fjöldi fólks flytji nú til landsins og skapi þrýsting á húsnæðismarkað. Mest er um að ræða erlenda ríkisborgara sem koma hingað til starfa.

„Sú mikla eftirspurn sem hefur ríkt eftir íbúðum til kaupa síðustu misseri vegna lágra vaxta og skorts á öðrum fjárfestingarkostum gæti þó farið dvínandi eftir því sem vextir hækka. Því er mikilvægt að ekki séu byggðar íbúðir með það að leiðarljósi að sú eftirspurn haldist áfram jafn sterk.“

Heimild: Visir.is