Home Fréttir Í fréttum Áætlað er að allt að sex hundruð manns vinni við byggingu kísilvers...

Áætlað er að allt að sex hundruð manns vinni við byggingu kísilvers á Bakka

74
0
Mynd: LNS saga
Áætlað er að allt að sex hundruð manns vinni við byggingu kísilvers á Bakka og við virkjunarframkæmdir á Þeistareykjum. Bæjaryfirvöld í Norðurþingi undirbúa nú aðgerðir til að bregðast við fólksfjölguninni.

Hópur fólks víða úr samfélaginu hefur undanfarið fjallað um þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru á innviðum í Norðurþingi og hvernig bregðast megi við auknu álagi. Horft hefur verið til löggæslu, heilsugæslu, félagsmála og fleiri þátta.

<>

Vilja vera vel undirbúin
Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings, segir þetta hafa áhrif á mjög margt. „Og við erum að reyna að átta okkur á því heilt yfir hvað þetta þýðir og vera undirbúin undir að taka á móti fólki hérna sem best við getum.“

Horfa til reynslunnar á Austurlandi
Þingeyingar horfa meðal annars til reynslunnar á Austurlandi þar sem bregðast þurfti tímabundið við mikilli fólksfjölgun og álagi sem fylgdi byggingu Káranhjúkavirkjunar og álvers Alcoa. Þar var þó vissulega allt mun stærra í sniðum.

Þarf aukið fjármagn
„Málefni löggæslu og heilbrigðismála eru auðvitað ofarlega,“ segir Kristján. „Okkur finnst við svolítið svelt, sérstaklega gagnvart löggæslumálum og þjónustu við okkar íbúa hér.“

Tala fyrir daufum eyrum
Á heilbrigðisstofnuninni á Húsavík þarf að gera breytingar og fjölga starfsfólki og Jón Helgi Björnsson, forstjóri þar, segir að óskað hafi verið eftir auknum fjármunum til þessa verkefnis, en þar sé talað fyrir daufum eyrum. Og miðað við mönnun hjá lögreglunni á Húsavík í dag, verður að óbreyttu erfitt að bregðast við auknu álagi. Þar þarf aukið fjármagn að mati bæjarstjórans.

Treysta á að stjórnvöld komi að málum
Lögreglan á Egilsstöðum tók upp vaktir allan sólarhringinn á byggingatíma Káranhjúkavirkjunar og þurfti aukalega að sinna á annað hundrað skráðum útköllum, auk mikils álags vegna fjölda annarra þátta. „Við auðvitað bara treystum á að ríkið spili með okkur í því að tryggja boðlega þjónustu fyrir okkar íbúa,“ segir Kristján Þór.

Heimild:  Rúv.is