Home Fréttir Í fréttum Flýting Norðfjarðarganga blásin af

Flýting Norðfjarðarganga blásin af

93
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ekki verður hægt að flýta opnun Norðfjarðarganga um allt að 8 mánuði eins og vonir voru bundnar við. Vegagerðin segir að menn hafi í raun fallið á tíma og nýta hefði þurft sumarið betur. Ef flýta hefði átt göngunum hefðu rafverktakar þurft að vinna á sólarhringsvöktum með auknum kostnaði.

Innanríkisráðherra Ólöf Nordal sagði þegar hún sprengdi síðasta haftið í göngunum að hún væri tilbúin að beita sér fyrir því að fjármagn yrði flutt milli ára til að hægt yrði að opna göngin fyrr; jafnvel í árslok 2016, en aðeins ef enginn auka kostnaður fælist í slíku. Samkvæmt áætlun eiga göngin ekki að opna fyrr en í september 2017. Flýting hefði sparað snjómokstur á Oddsskarði og óþægindi vegna vetrarfærðar þar hálfan vetur.

<>

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttatofu að fljótlega hafi komið í ljós að flýting hefði útheimt aukið fjármagn. Vegagerðin og Suðurverk séu sammála um að tíminn sé of stuttur til að ljúka við þá mörgu verkþætti sem eftir séu. Áfram verði miðað við að göngin opni í síðasta lagi 1. september 2017 en vinnu verði þó hraðað eins og kostur sé. Samkvæmt þessu er ljóst að opnun ganganna verður ekki flýtt svo um munar.

Raflögn í næturvinnu

Suðurverk er yfirverktaki við gangagerðina en raflögn og malabikun eru stórir verkþættir sem hefði þurft að flýta. Samkvæmt upplýsingum frá Rafmönnum á Akureyri sem leggja rafmagnið í göngin hefði flýting útheimt að unnið hefði verið stanslaust allan sólarhringinn og því hefði stór hluti verksins farið fram í næturvinnu. Það hefði stóraukið kostnað við raflögn.

Engar viðræður um malbikun

Til greina kom að fresta því að leggja seinna malbikslagið í göngunum, leggja það sumarið 2017 og bein umferð um Oddsskarð á meðan. Samkvæmt upplýsingum frá malbikunarstöðinni Hlaðbæ Colas höfðu engar formlegar viðræður átt sér stað milli þeirra og Suðurverks um mögulega flýtingu.

Tíminn hljóp frá mönnum

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að kostnaður hafi ekki ráðið úrslitum um að flýting hafi verið blásin af heldur hafi tíminn einfaldlega verið hlaupinn frá mönnum. Sérstaklega hefði verið mikilvægt að byrja fyrr á því að steypa vegskála og að klára það í sumar sem leið. „Þegar menn fóru að leggjast yfir allt sem eftir er bæði utan ganga og innan og fóru að setja upp nýja tímaáætlun sáu menn að það yrði ekki hægt að opna um áramótin [2016-2017]. Það er það mikið óunnið og menn voru fullseinir til að skoða þetta í fullri alvöru,“ segir Hreinn.

Mikið eftir

Sjálfur gangagröfturinn hafi gengið vel og verið nokkrum mánuðum á undan áætlun en mannvirkið sé þó bara orðið eins og fokhelt hús og ekki einu sinni tilbúið undir tréverk. „Utanhúss eru það vegskálar, að ganga frá vegum og svo mikil vinna í rafbúnaði. Svona göng eru orðin svo tæknivædd; lýsingu, skynjurum, loftræstingu og öllu því fylgir svo mikil vinna. Það stendur ekki undir því að vinna dag og nótt í heilt ár bara til að geta flýtt þessu um nokkra mánuði.“ segir Hreinn. Þó verkáætlun verði ekki breytt verði tíminn notaður eins vel og mögulegt sé. „Þá kemur í ljós hvort hægt verður að opna fyrr en lokafrestur segir til um.“

Heimild: Rúv.is