„Við sjáum að staðan er nokkuð alvarleg á húsnæðismarkaði, má segja. Við erum búin að fá tvo mánuði í röð þar sem íbúðaverð hækkaði nokkuð skarplega milli mánaða, við höfðum gert ráð fyrir því að það færi eitthvað að hægja á,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum.
Eftirspurn enn mikil þrátt fyrir vaxtahækkanir
Kári Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir að það hafi komið á óvart að eftirspurnin sé enn svo mikil þrátt fyrir vaxtahækkanir. „Það er ennþá að draga úr framboði íbúða til sölu, það kemur á óvart hvað markaðurinn er enn þá á fullu,“ segir Kári. Monika Hjálmtýsdóttir, varaformaður Félags fasteignasala, tekur undir þetta og segir mikinn skort á markaðnum.
„Það eru mjög fáar íbúðir til sölu, það hafa aldrei verið jafn fáar íbúðir til sölu eins og eru í dag. Eins og staðan er núna þá eru um 220 íbúðir í fjölbýli til sölu og um 100 í sérbýli þannig að þetta er ótrúlega lítill fjöldi íbúða sem þá endurspeglast í ástandinu,“ segir Monika.
„Við viljum sjá miklu meira byggt“
Hún segir að það þyrftu að vera um 2.500 til 3.000 til að markaðurinn næði jafnvægi. Eftirspurn eftir íbúðum sé enn mikil og vaxtahækkanir hafi ekki slegið á það. „Nei við höfum ekki fundið það enn enda eru vextir tiltölulega lágir í sögulegu samhengi, þannig að við höfum ekki fundið það ennþá allavega.
Við metum það sem svo að þessi skortur muni vera viðvarandi eitthvað áfram á meðan ekki meira er byggt, það er eitthvað í farvatninu af byggingum en alls ekki nóg og við viljum sjá miklu meira byggt til þess að anna þessari eftirspurn þannig að við sjáum alveg á næstunni að þetta muni halda áfram þetta ástand, þetta mun ekki lagast á næstu tveimur til þremur árum,“ segir Monika.
Meðalkaupverð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 20 milljónir frá upphafi árs í fyrra, samkvæmt útreikningum Hagdeildar Landsbankans úr gögnum Þjóðskrár fyrir fréttastofu.
Fyrir ári síðan kostaði dæmigert sérbýli 85 milljónir, en hefur hækkað í 105 milljónir. Fjölbýli hefur á sama tíma hækkað um 10 milljónir, fyrir ári kostaði íbúð í dæmigerðu fjölbýlishúsi um 52 milljónir en hefur hækkað í 62. Þjóðhagsráð ákvað í síðustu viku að endurvekja átakshóp með það að markmiði að leggja mat á stöðuna á húsnæðismarkaði og gera tillögur um úrbætur. Fyrsti fundur hópsins verður á föstudaginn.
Heimild: Ruv.is