Home Fréttir Í fréttum Ölfusárbrú og Axarvegur á leið í einkaframkvæmd

Ölfusárbrú og Axarvegur á leið í einkaframkvæmd

307
0
Ný brú yfir Ölfusá er fyrirhuguð á móts við Laugardæli norðaustan Selfoss. VEGAGERÐIN

Smíði nýrrar Ölfusárbrúar og lagning Axarvegar eru að fara í útboðsferli sem einkaframkvæmd og mun Vegagerðin í þessum og næsta mánuði óska eftir áhugasömum bjóðendum. Ný brú á Hornafjarðarfljót er þó komin lengst slíkra verkefna en tilboð verða opnuð síðar í þessari viku.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að vegur um Öxi stytti ferðatímann milli Egilsstaða og Djúpavogs um fjörutíu til fimmtíu mínútur en hann hefur þann annmarka að vera ófær yfir vetrarmánuði. Uppbygging Axarvegar sem heilsársvegar er meðal þeirra sex verkefna, sem tilgreind eru í lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, og núna hefur Vegagerðina formlega auglýst eftir áhugasömum bjóðendum.

Horft niður í Berufjörð af veginum um Öxi.
EGILL AÐALSTEINSSON

Þeim sem fær verkið er einnig ætlað að hanna veginn, fjármagna verkið að hálfu og síðan annast snjóruðning og viðhald vegarins til allt að þrjátíu ára. Mótframlag kemur úr ríkissjóði en vegfarendum er ætlað að greiða hinn helminginn með vegtolli. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta ársins 2023.

Áður var Vegagerðin búin að setja brú yfir Hornafjarðarfljót í samskonar ferli. Þar hafa þrír verktakahópar verið metnir hæfir og verða tilboð opnuð næstkomandi fimmtudag, 17. febrúar, bæði í verkið sjálft sem og fjármögnun þess. Að sögn Óskars Arnar Jónssonar, forstöðumanns hjá Vegagerðinni, er vonast til að framkvæmdir við Hornafjarðarfljót hefjist með vorinu.

Fyrirhuguð brú yfir Hornafjarðarfljót.
VEGAGERÐIN

Ný brú á Ölfusá við Selfoss verður svo þriðja samvinnuverkefnið sem fer í gang og stefnir Vegagerðina að því að auglýsa í næsta mánuði eftir áhugasömum aðilum til að smíða og fjármagna brúarsmíðina. Þar er einnig gert ráð fyrir að mótframlag ríkisins verði um það bil helmingur, – hinn helminginn greiða svo vegfarendur með brúartolli. Brúarsmíðin gæti hafist á fyrri hluta næsta árs.

Heimild: Visir.is