Home Fréttir Í fréttum HG: Ekkert bólar á nýja frystihúsinu á Ísafirði

HG: Ekkert bólar á nýja frystihúsinu á Ísafirði

148
0

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf fékk í maí 2018 úthlutað lóðinni Hrafnatanga 2 , sem er 19.500 fermetrar að stærð, undir nýtt frystihús fyrirtækisins með þeim fyrirvara að úthlutunin falli úr gildi hafi teikningar ekki borist innan 12 mánaða og framkvæmdir hafi ekki hafist innan 24 mánaða.

<>

Nú nærri fjórum árum síðar bólar ekkert á framkvæmdum og teikningar hafa ekki verið lagðar fram en úthlutunin er í fullu gildi. Hjá Ísafjarðarbæ fengust þau svör að úthlutunin hefði ekki verið felld úr gildi eins og fyrirvarar kveða á um , þar sem lóðarhöfum hafi verið sýnt svigrúm varðandi tímafrestinn meðan svæðið er enn framkvæmdasvæði vegna lengingar Sundabakka.

Í september 2019 kemur fram í erindi til bæjarins frá Tækniþjónustu Vestfjarða f.h. HG að nauðsynlegt sé að lenging Sundabakka og uppbygging götunnar fari fram áður eða samhliða uppbyggingu á fiskvinnsluhúsinu á Hrafnatanga 2.

Framkvæmdir við lengingu Sundabakka standa nú yfir og byggingar á lóðum við Hrafnatanga eru farnar að rísa.

Fyrirspurn Bæjarins besta til Ísafjarðarbæjar um það hvenær þess væri að vænta að HG hefji framkvæmdir á lóð sinni og hvort eitthvað tefji áform fyrirtækisins var vísað til fyrirtækisins.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvör hf svaraði þvi til að verkefnið væri á teikniborðinu.

Hann var þá spurður að því hvort gert væri ráð fyrir að togarar fyrirtækisins hafi fast viðlegupláss við Sundabakka við nýja frystihúsið þann tíma sem skipin eru í höfn eða hvort þurfi þau að færa sig og víkja fyrir skemmtiferðaskipum.

Svar Einars Vals var að „skipulagsmálin eru ekki í okkar höndum en við væntum góðs skilnings af hálfu þeirra sem með þau mál fara hjá Ísafjarðarbæ.“

Fram kom á opnum kynningarfundi á vegum Verkís um lengingu Sundabakka að unnt er að ráðast í lenginguna, sem mun kosta um 1 milljarð króna, vegna tekna af skemmtiferðaskipum.

Þau bóka viðlegupláss langt fram í tímann og er þegar farið að bóka daga fyrir þau á árunum 2024 – 2026 að sögn Guðmundar M. Kristjánssonar hafnarstjóra.

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf, yrði sem aðrar útgerðir fiskiskipa, að stilla sín skip með tilliti til bókana skemmtiferðaskipanna. Samkvæmt þessu verða fiskiskip að færa sig að löndun lokinni sé viðleguplássið þegar bókað.

Hvorki af hálfu bæjaryfirvalda né Hraðfrystihússins Gunnvör hf hafa fengist skýr svör við því hvers vegna framkvæmdir eru ekki hafnar, en eftir því sem næst verður komist er ekki samkomulag milli aðila um viðlegupláss skipa fyrirtækisins og líklegt að það skýri kyrrstöðuna á Hrafnatanga 2.

Heimild: BB.is