Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Gröfutækni bauð lægst í gatnagerð í Hveragerði

Gröfutækni bauð lægst í gatnagerð í Hveragerði

278
0
Jón Friðrik Matthíasson, byggingafulltrúi, Hörður Úlfarsson frá Gröfutækni og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri við undirritun verksamnings. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Gröfutækni ehf á Flúðum átti lægsta tilboðið í gatnagerð í Hólmabrún og Þelamörk í Hveragerði. Alls bárust sjö tilboð í verkið.

<>

Tilboð Gröfutækni hljóðaði upp á 234 milljónir króna sem er 82% af kostnaðaráætlun.

Sex aðrir verktakar buðu í verkið; Arnon ehf bauð 238,9 milljónir króna, Aðalleið ehf 241,8 milljónir, Smávélar ehf 260 milljónir, Stórverk ehf 260,8 milljónir, Vörubílstjórafélagið Mjölnir ehf 282,4 milljónir og Verktækni ehf 296 milljónir króna.

Verkið felur í sér gerð á nýjum götum við Hólmabrún og Þelamörk í Hveragerði. Skil á fyrsta áfanga eru þann 15. október næstkomandi en verklok eru í síðasta lagi þann 15. júní á næsta ári.

Verkkaupar eru Hveragerðisbær, Rarik, Veitur, Gagnaveitan og Míla. Bæjarstjórn hefur samþykkt tilboðið og munu framkvæmdir væntanlega hefjast í mars.

„Með þessari framkvæmd má segja að lokahnykkur á uppbyggingu í austurhluta bæjarins sé farinn í gang en framkvæmdin nú felst í lagningu Þelamerkur frá Leikskólanum Undralandi og niður á Sunnumörk auk Hólmabrúnar og umfangsmikillar vinnu við fráveitu á svæðinu.

Með áfangaskiptum skilum verður mögulegt að úthluta lóðum við Hólmabrún í vor og gefst þá lóðarhöfum nægjanlegur tími til að undirbúa framkvæmdir sem geta þá hafist þegar lóðir verða byggingahæfar í október,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

„Á sama tíma er fyrirtækið Loftorka nú að leggja Sunumörk frá Dalsbrún að Ölfusborgum með nýrri brú yfir Varmá.

Það er ánægjulegt að nú skuli þessir áfangar allir vera farnir af stað en þessar framkvæmdir munu gjörbylta aðkomu og vegakerfi bæjarins,“ segir Aldís.

Heimild: Sunnlenska.is