Home Fréttir Í fréttum Sjúkrahúsið á Akureyri fær rúmar 300 milljónir

Sjúkrahúsið á Akureyri fær rúmar 300 milljónir

122
0
Mynd: Sölvi Andrason - Rúv
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Sjúkrahúsinu á Akureyri auknar fjárheimildir til brýnna framkvæmda, alls 307 milljónir króna. Forstjóri sjúkrahússins fagnar fjárveitingunni en segir enn vanta töluvert fé í reksturinn.

Nýtt sjúkrahúsapótek

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir að annars vegar sé fjárveitingunni ætlað að halda áfram að bæta aðstöðu nýs sjúkrahússapóteks en hins vegar í lokafrágang og innréttingu tæplega 600 fermetra húsnæðis á tengigangi sem meðal annars nýtist í kennsluaðstöðu og skrifstofur.

<>

„Þetta hjálpar okkur við áframhaldandi þróun, sjúkrahúsapótekið hefur gríðarleg áhrif varðandi til dæmis þjónustu við krabbameinssjúka, til þess að við getum verið góða og viðunandi aðstöðu fyrir t.d. blöndun krabbameinslyfja.

Við erum líka mjög ánægð að fá þetta fjármagn til þess að loka tengiganginum eða réttara sagt að klára að innrétta hann því það tryggir okkur enn betri sess sem kennslusjúkrahús og við viljum sannarlega halda áfram á þeirri braut,“ segir Hildigunnur.

Vantar meira rekstrarfé

Þó Hildigunnur fagni fjárveitingunni þá skortir enn mikið fé í sjálfan rekstur sjúkrahússins. Hún segir að sjúkrahúsið fái ekki nægilegt fjármagn fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.

„Ráðuneytið er meðvitað um stöðuna og ég veit að þau eru að skoða málin og við bíðum svolítið átekta eftir því. En þetta er þó að minnsta kosti skref í góða átt með þessa fjárfestingafjármuni og við erum bara afskaplega þakklát fyrir það,“ segir Hildigunnur.

Heimild: Ruv.is