Home Fréttir Í fréttum Afleit hugmynd að fylla fjöruna í Skerjafirði

Afleit hugmynd að fylla fjöruna í Skerjafirði

58
0
Mynd: Ask arkitektar, Landslag og Efla / Ask arkitektar, Landslag og Efla
Áform borgaryfirvalda um landfyllingu í Grófavík í Skerjafirði, í öðrum áfanga nýrrar byggðar þar, hafa fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum sem sent hafa inn umsagnir í skipulagsferli málsins.

1300 íbúða byggð

Til stendur að byggja í svokallaðri Gróf, svæði á milli suðurenda Reykjavíkurflugvallar og eystri enda núverandi byggðar í Skerjafirði, allt að 1300 íbúðir. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir hátt í 690 íbúðum. Sú byggð yrði öll fyrir ofan núverandi fjöru. Í öðrum áfanga er hins vegar þörf á landfyllingu á ríflega 700 metra  löngum kafla, sem næði 100 metra út í sjó.

<>

Neikvæð áhrif á gróður og dýralíf

Í frummatsskýrslu sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir Reykjavíkurborg kemur fram að framkvæmdin hefði talsverð neikvæð áhrif á fuglalíf og verndarsvæði og verulega neikvæð áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki. Til mótvægis þessu er ætlunin að móta strandlengju landfyllingarinnar þannig að hún líki eftir náttúrlegri strönd til að auka líkur á að þar myndist leirur á ný.

Ólafur K. Níelsen, formaður Fuglaverndar, og Jóhann Óli Hilmarsson, fyrrverandi formaður félagsins, gagnrýna þessar hugmyndir harðlega í grein sem þeir skrifuðu í Kjarnann um helgina. Spegillinn ræddi nánar við Ólaf um gagnrýni þeirra félaga.

Náttúrulegar fjörur farnar

„Lífríki fjörunnar er  mikilvægt” segir Ólafur. „Það hefur hátt náttúruverndargildi og líka  útivistargildi. Það er búið að eyðileggja stóran hluta af náttúrulegum fjörum í landi Reykjavíkur. Nær allar náttúrlegar fjörur við norðurströnd Reykjavíkur eru farnar”.

Fuglarnir setja sterkan svip

„En það er önnur saga í Skerjafirðinum. Þar er enn stór hluti fjörunnar lítt- eða óraskaður. Þetta er lífríkt svæði og mjög vinsælt útivistarsvæði borgaranna. Fuglarnir setja hvað sterkastan lit á þetta útivistarsvæði, fuglarnir sem sækja í fjöruna. Þannig að það er okkar skoðun að það eigi ekki að ganga frekar á náttúrulegar fjörur í landi Reykjavíkur”.

Fjörurnar verða eyðilagðar

„Við eigum að haga okkar skipulagi og framkvæmdum þannig að við getum tryggt verndun þessara svæða. Ef það verður ekki tekið hörð ákvörðun um að þessum fjörum verði ekki raskað þá er alveg ljóst að smám saman munu þessar náttúrulegu fjörur sem eftir eru í Skerjafirði verða eyðilagðar. Þær verða lagðar undir mannvirki. Og ekki vantar hugmyndirnar. Núna eru það uppfyllingar í Grófavík og það munu koma fram aðrar  hugmyndir og þær eru í gangi”.

Snýst líka um grunnsævið

„Þannig að það þarf á einhvern lögformlegan máta að segja að fjaran sé friðuð, við ætlum ekki að ganga á hana frekar. Þetta er ekki aðeins fjaran í Skerjafirði, þetta er líka grunnsævið. Skerjafjörður hefur alþjóðlegt náttúruverndargildi út af fuglaskaranum sem að þangað sækir. Það eru ekki bara fuglarnir sem sækja í fjörurnar, heldur líka fuglar sem nýta grunnsævið”.

Afleit hugmynd

„Þessar uppfyllingar sem eru boðaðar þarna í Grófuvíkinni eru að skerða hvoru tveggja. Þær skerða fjöruna og einnig ná uppfyllingarnar út á grunnsævið. Síðan ætla þeir að bæta um betur og hanna nýjar fjörur fyrir utan fyllingarnar. Við segjum að það sé tálsýn. Það er hreint út sagt afleit hugmynd að leggja víkina undir uppfyllingar”.

Heimild: Ruv.is