Home Fréttir Í fréttum Fá ekki verkfærasett sem fyrir mistök var á spottprís

Fá ekki verkfærasett sem fyrir mistök var á spottprís

233
0
Hjólsög. Myndin er úr safni. Mynd: Pixabay
Kærunefnd vöru-og þjónustukaupa hefur hafnað kröfu tveggja viðskiptavina sem töldu sig hafa dottið í lukkupottinn þegar þeir keyptu veglegt verkfærasett frá Bosch á spottprís.
Verkfærasettið átti að kosta um 220 þúsund krónur en var fyrir mistök selt á 22 þúsund krónur. Viðskiptavinirnir kröfðust þess að fá verkfærasettið afhent á þessum veglega afslætti en kærunefndin hafnaði kröfu þeirra.

Í verkfærasettinu var borvél, hersluvél, brothamar, slípirokkur og hjólsög en líka vinnuljós, rafhlöður og hraðhleðslutæki í tösku.

<>

Viðskiptavinirnir tveir keyptu verkfærasettið á vefsíðu verslunarinnar á tæpar 22 þúsund krónur. Þremur dögum eftir kaupin, á fyrsta virka degi, var þeim tilkynnt að mistök hefðu verið gerð; verkfærasettið hefði átt að kosta 220 þúsund krónur.

Þótt verslunin endurgreiddi viðskiptavinunum sátu þeir fastir við sinn keip og vildu fá verkfærasettin sín afhent.

Annar þeirra sagði ekki hægt að ætlast til að neytandinn hefði sérstaka þekkingu á verðlagningu verkfæra til að geta metið hvort verð væri óeðlilega lágt. 

Í úrskurði kærunefndarinnar kemur fram að ef verkfærin hefðu verið seld í sitthvoru lagi hefði heildarvirðið numið rúmlega 300 þúsund krónum.

Hinn sagðist hafa keypt verkfærasettið sem gjöf fyrir eiginmann sinn. Þremur dögum eftir kaupin hefði starfsmaður verslunarinnar haft samband og tilkynnt að mistök hefðu verið gerð en það gæti varla verið við hana að sakast þótt verslunin hefði gert mistök. Hún ætti því að fá verkfærasettið.

Í öðrum úrskurðinum segir kærunefndin að 18 til 20 verkfærasett hefðu verið seld á þessu verði. Fjárhagslegt tjón verslunarinnar yrði því nokkurt ef fallist væri á að hún þyrfti að afhenda verkfærin.

Nefndin telur enn fremur að viðkomandi hlyti að hafa fengið hugboð um að verðið væri byggt á mistökum.

Í hinum úrskurðinum segir kærunefndin að viðskiptavininum hefði mátt vera ljóst að verðlagningin á verkfærasettinu hefði verið verulega lág.

Var því ekki fallist á kröfur þeirra tveggja að fá verkfærin afhent.

Heimild: Ruv.is